fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Eyjan

Þórhildur Sunna með rökstuddan grun um Eyþór Arnalds sem hyggst klaga Dóru Björt – „Þessi ummæli eru þvert á siðareglur“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 22. október 2019 14:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líkt og Eyjan hefur greint frá sakaði Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, Eyþór Arnalds, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lygar og óheiðarleika í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun, vegna meintra sýndarviðskipta hans við Samherja vegna kaupa hans á hlut í Morgunblaðinu. Sagði hún Eyþór sinna útfararstörfum fyrir útgerðina.

Sagði Eyþór í þættinum að Dóra Björt ætti að skammast sín fyrir að koma svona fram.

Sjá nánar: Dóra Björt sakar Eyþór um blákaldar lygar – „Átt að skammast þín fyrir að koma svona fram“

Brot á siðareglum

Eyþór hyggst fara með málið lengra:

„Hún talar ítrekað um óheiðarleika og lygar og ég á erfitt með að sætta mig við það þegar það er ítrekað farið í manninn. Þetta er ekki í fyrsta skipti því hún hélt því fram að ég ætti hluti í orkufyrirtækjum og gæti því ekki setið í stjórn Orkuveitunnar sem er ekki rétt. Svo var haft eftir heimildamanni á Bylgjunni að ég hafi aukið hlut minn í Árvakri sem er heldur ekki rétt. Ég tel mig vita hvaðan það kemur,“

segir Eyþór við RÚV og bætir við að ummælin séu í andstöðu við siðareglur kjörinna fulltrúa:

„Þessi ummæli eru þvert á siðareglur og ég tel fullt tilefni til að ræða þetta þar. Við samþykktum fallegar og einfaldar siðareglur og því er spurningin hvort við ætlum okkur að fara eftir þeim eða ætlum við að fara með gífuryrði um hvert annað í beinni útsendingu.“

Aumkunarvert

Dóra Björt hefur brugðist við þessu hjá Eyþóri, um að ummæli hennar varði við siðareglur. Hún segir á Twitter:

„Skólabókardæmi um hvernig Sjálfstæðisflokkurinn afvegaleiðir óþægilega umræðu um mögulega spillingu. Skammast út í þann sem vekur máls á því, benda í allar áttir og svara í hálfkláruðum vísum. Aumkunarvert.“

Rökstuddur grunur

Um málið segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata á Facebook:

„Déjà vu! Ég hef rökstuddan grun um að litlir karlar í Sjálfstæðisflokknum eigi bágt með þegar konur í Pírötum benda á spillinguna í bakgarðinum hjá þeim.“

Þarna vísar Þórhildur Sunna til þess þegar hún sagði í Silfrinu að rökstuddur grunur léki á því að Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði dregið að sér fé í akstursmálinu svokallaða. Var Þórhildur fyrst þingmanna til að brjóta siðareglur þingmanna, samkvæmt siðanefnd Alþingis, sem taldi að um órökstuddar aðdróttanir væri að ræða og til þess fallin að kasta rýrð á Alþingi.

Mótmælti Þórhildur niðurstöðunni.

Nýjar siðareglur kjörinna fulltrúa voru samþykktar í borgarstjórn í sumar. Lætur Eyjan lesendum eftir að dæma um hvort borgarfulltrúar hafi farið eftir þeim í einu og öllu:

SIÐAREGLUR kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg

  1. Við vinnum fyrir fólkið í borginni og pössum upp á Reykjavík sem heimili komandi kynslóða.
  2. Við erum heiðarleg, ábyrg, og sýnum gott fordæmi í okkar störfum.
  3. Við kynnum okkur málin og mætum undirbúin til starfa.
  4. Við segjum satt en gætum trúnaðar þegar trúnaður þarf að ríkja.
  5. Við veitum almenningi og fjölmiðlum nauðsynlegar upplýsingar.
  6. Við hugum að því að það sé gott að vinna hjá Reykjavíkurborg.
  7. Við förum vel með fjármuni borgarinnar og eignir hennar.
  8. Við virðum margbreytileikann og vinnum gegn hvers kyns fordómum.
  9. Við sýnum kurteisi, tillitsemi og virðum einkalíf annarra.
  10. Við biðjumst afsökunar á mistökum og hlýðum á afsökunarbeiðnir.
  11. Við erum meðvituð um að við höfum ólíkar skoðanir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK