Töluverður munur er á stuðningi við sölu á áfengi í matvöruverslunum eftir því hvaða þingflokk fólk myndi kjósa ef gengið væri til kosninga í dag. Þeir sem myndu kjósa Pírata eru hlynntastir sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum eða um 64% samkvæmt nýrri könnun Maskínu.
Þeir sem myndu kjósa Miðflokkinn eru andvígastir en aðeins tæplega 24% þeirra eru hlynnt á meðan rúmlega 66% þeirra eru andvíg sölu á bjór og rúmlega 68% andvíg sölu á léttvíni í matvöruverslunum.
Þess má geta að ekki stendur til að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum, ekkert slíkt frumvarp liggur fyrir á Alþingi. Hinsvegar liggur fyrir frumvarp um afnám einkaleyfis ríkisins til sölu á áfengi. Þar er þó ekki gert ráð fyrir að leyfa sölu áfengis í matvörubúðum, heldur að einkaaðilar fái að reka eigin búðir til sölu áfengis, gegn ákveðnum skilyrðum.
Meiri stuðningur en mótstaða er meðal Íslendinga við sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum. Mótstaða við sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum er hinsvegar töluvert meiri. Lítil breyting er á afstöðu frá síðustu mælingu.
Rúmlega 44% eru hlynnt sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum en rúmlega 40% eru andvíg. Þeir sem eru andvígir sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum eru hinsvegar rúmlega 67% en aðeins 18% eru hlynnt.
Enn sem áður eru karlar hlynntari sölu á öllu áfengi í matvöruverslunum en konur. Mestur er munurinn á stuðningi við sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum en þar eru 24% karla hlynnt samanborið við tæplega 9% kvenna.
Aldur hefur einnig áhrif á stuðning við sölu á áfengi í matvöruverslunum. Því yngri sem svarendur eru þeim mun hlynntari eru þeir sölu á áfengi þar. Yngstu svarendur (18-29 ára) eru í öllum tilfellum hlynntastir sölu á áfengi í matvöruverslunum en þeir elstu (60 ára og eldri) er í öllum tilfellum andvígastir.
Svarendur voru 859 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá ogendurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 9. til 23. september 2019.