Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetafrú halda til Japans í næstu viku og verða viðstödd krýningarhátíð Naruhito Japanskeisara þriðjudaginn 22. október.
Forsetahjón munu taka þátt í opinberum viðburðum í tengslum við krýningarhátíðina ásamt fjölmörgum öðrum þjóðarleiðtogum hvaðanæva að úr veröldinni.
Þau sitja m.a. hátíðarkvöldverð í keisarahöllinni að kvöldi 22. október og kvöldverð Shinzo Abe forsætisráðherra til heiðurs Naruhito Japanskeisara að kvöldi miðvikudagsins 23. október. Þá mun forseti Íslands eiga fundi með Shinzo Abe forsætisráðherra og með Tadamori Oshima, forseta fulltrúardeildar þingsins, og þingmönnum.
Þá mun forseti einnig eiga fund með Shinako Tsuchiya, formanni vinafélags Íslands á japanska þjóðþinginu, og öðrum þingmönnum í vinafélaginu.
Forseti Íslands heimsækir Tokyo háskóla fimmtudaginn 24. október ásamt Jóni Atla Benediktssyni rektor Háskóla Íslands og situr fund með Makoto Gonokami rektor skólans og öðrum forsvarsmönnum hans. Í kjölfarið heldur forseti opinberan fyrirlestur í boði Tokyo háskóla. Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku og ber heitið: The Might of the Weak. The Role of Small States in International Relations and the Case of Iceland.
Eliza Reid forsetafrú mun heimsækja Sophia háskólann fimmtudaginn 24. október og leiða þar hringborðsumræður um jafnréttismál og Ísland með nemendum skólans og kennurum.
Þá mun forseti Íslands jafnframt eiga fundi með Kiyoshi Yamada rektor Tokai háskólans, snæða hádegisverð með Shunichi Suzuki, þeim ráðherra í ríkisstjórn Japans sem stýrir málefnum Ólympíuleikanna sem haldnir verða í Japan á næsta sumri, og Yasuhiro Yamashita, forseta Ólympíunefndar Japans, og heimsækja Sasakawa friðarstofnunina.
Þá býður Elín Flygenring sendiherra til móttöku til heiðurs forsetahjónum í sendiráði Íslands í Japan síðdegis fimmtudaginn 24. október.
Á leið sinni til Japans mun forseti Íslands eiga stutta viðdvöl í Vínarborg laugardaginn 19. október og sækja frumsýningu í Burg leikhúsinu á verkinu Die Edda eftir Mikael Torfason í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar.