fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Eyjan

Vigdís berst gegn loftslagsskógum á Íslandi: „Tímaskekkja og einn stór misskilningur“ – Vigdís á villigötum segja sérfræðingar

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 16. október 2019 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segir uppbyggingu skóga á norðurslóðum vera tímaskekkju byggða á tilfinningum en ekki rökum, þar sem þeir stuðli að hækkun hitastigs á jörðinni, en eins og flestir vita má jörðin tæplega við slíku á dögum hamfarahlýnunar.

Vigdís ætti að vita sitthvað um tré, en hún er garðyrkjufræðingur frá Garðyrkjuskóla ríkisins hvar hún var einnig stundakennari og stundaði einnig nám við frumgreinadeild Háskólans á Bifröst.

Lagði Vigdís fram eftirfarandi bókun á fundi umhverfisráðs í dag, en fundað var um loftslagsskóga í Reykjavík og sakar Vigdís meirihlutann um að sjá ekki skóginn fyrir trjánum:

„Fjölmargar vísindagreinar hafa birst á undanförnum árum þar sem verið er að greina áhrif skóga á loftslag. Þeim ber öllum saman um að nauðsynlegt sé að vernda, viðhalda og auka umfang hitabeltisskóga og skóga á suðlægum breiddargráðum. Á norðurslóðum eigi hins vegar alls ekki að planta skógi því hann hækki hitastig jarðar. Að auki er talið að laufskógar á norðurslóðum hafi mikil áhrif á vatnsbúskap vegna mikillar uppgufunar frá laufþekjunni sem er talin auka hlýnun jarðar. Loftslagsskógar eru því algjör tímaskekkja og einn stór misskilningur. Umhverfismálin verða að skoðast í heild á heimsvísu. Tilfallandi inngrip eins og loftslagsskógar í Reykjavík eða á Íslandi virðast byggjast á tilfinningum en ekki rökum.“

Alvarlegar staðhæfingar sem eigi ekki við rök að styðjast

Pétur Halldórsson, kynningarstjóri Skógræktarinnar, segir við Eyjuna að vísindin að baki kenningum Vigdísar séu hinsvegar alröng, samkvæmt sérfræðingum:

„Þarna eru atriði sem sérfræðingar Skógræktarinnar segja alröng. Raunar er alvarlegt að borgarfulltrúi skuli setja þetta fram og staðhæfa eitthvað um vísindi án þess að benda á neinar tilteknar rannsóknir máli sínu til stuðnings. Skógur á norðurslóðum hækkar ekki hitastig jarðar. Jákvæð loftslagsáhrif skóga á norðlægum breiddargráðum eru veruleg,“

sagði Pétur og útskýrði nánar:

„Því er gjarnan haldið fram að dökkur barrskógur dragi mikinn hita í sig á vetrum samanborið við snævi þakið land. Þetta hafi áhrif til hlýnunar loftslagsins. Í grein dr Brynhildar Bjarnadóttur, lektors við HA,  o.fl. í Bændablaðinu 8. mars 2018 er sagt frá sex ára mælingum á endurskini fjögurra mismunandi vistkerfa á Suðurlandi. Þær voru gerðar á sandauðn, uppgræddu landi, í villtum birkiskógum og gróðursettum barrskógum. Á mælingunum sést að skógarvistkerfin tvö höfðu vissulega lægsta endurskinið að vetri til. Endurskin birkiskóga var enn minna en barrskóga enda birkið svart á vetrum en barrið grænt. Á þeim árstíma er hins vegar lítið og veikt sólskin. Áhrif sólar eru því mjög lítil að vetri.

Öðru máli gegnir þegar sól er hátt á lofti, frá vori fram á haust. Þá drekka sandauðnir og uppgrætt land í sig meiri hita en birki- og barrskógar. Þegar kolefnisbinding er tekin með í reikninginn blasir við að svartar sandauðnir gleypa í sig mikinn hita og binda ekkert kolefni. Þar eru því tvöföld neikvæð áhrif til hlýnunar. Í hinum þremur vistgerðunum – uppgræddu landi, birkiskógi og barrskógi – á sér hins vegar stað kolefnisbinding á vaxtartíma plantnanna. Það er því villandi að vekja fólki ugg um að norðlægir skógar hiti upp heiminn af því að þeir séu dekkri en snjóbreiður á veturna. Skylda okkar er gagnvart afkomendum okkar að græða svörtu auðnirnar upp til að vinna gegn hlýnuninni.“

Samkvæmt þessu hefur minna endurskin frá skógum en snjóbreiðum á veturna því ekki teljandi áhrif til hlýnunar. Loftslagsáhrifin sem fást með mikilli bindingu skóganna að sumarlagi vega þar margfalt á móti. Jafnframt endurkasta skógar meiri sólarhita á sumrin en auðnir og því eru tvöföld loftslagsáhrif af skógrækt á Íslandi þar sem er mikið um ógróið, illa gróið og rýrt land. Ísland myndi drekka í sig mun minni sólarhita ef það væri að verulegu leyti klætt kjarri og skógi. Ástand landsins nú stuðli frekar en hitt að hlýnun loftslagsins á jörðinni. Ef það væri vel gróið myndi það hins vegar hamla gegn hlýnun loftslagsins á jörðinni.

Loftslagsskógur í Reykjavík og Mosfellsheiði

Reykjavíkurborg er í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur um kolefnisjöfnun vegna flugferða, ferðalaga og öðrum rekstri sem felst í gróðursetningu trjáa og plantna. Eru svokallaðir loftslagsskógar í Reykjavík sagðir auka skjól og draga úr vindi á Kjalanesi og í Grafarvogi, auk þess að draga úr mengun.

Þá eru einnig áform uppi um stórfellda skógrækt á Mosfellsheiði, hvar tilgangurinn er að binda kolefni og veita höfuðborginni skjól fyrir austanáttinni. Er gert ráð fyrir að gróðursetning hefjist innan fjögurra ára en bæjarráð Mosfellsbæjar hefur samþykkt að fela bæjarstjóra heimild til að hefja viðræður við Skógræktarfélag Reykjavíkur þess efnis.

Þá skal tekið fram að hér á landi starfa ýmis fyrirtæki sem kolefnisjafna fyrir einstaklinga og fyrirtæki með því að gróðursetja tré. Kolviður er eitt slíkra fyrirtækja, en fyrirtækið gróðursetur rúmlega 100 þúsund plöntur á ári til þess að jafna losun sem hefur átt sér stað.

Þá er talið að slík kolefnislosun muni sækja á næstu árin og gerir Kolviður ráð fyrir að tryggja sér aðgang að 700 til 1000 hekturum af landi til þess að koma fyrir allt að 2.5 milljónum planta næstu árin.

Nánari upplýsingar og tilvísanir í vísindi frá Skógræktinni

https://www.skogur.is/is/um-skograektina/frettir-og-vidburdir/frettir-og-pistlar/skograekt-er-mikilvaegur-hluti-af-framlagi-islands-til-loftslagsmala

Bæklingur um loftslagsávinning norrænu skóganna:

https://www.skogur.is/static/files/utgafa/loftslagsavinningur-norraenu-skoganna.pdf

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”