Samfylkingin bætir mest við sig af stjórnmálaflokkum á Alþingi í könnun Zenter fyrir Fréttablaðið sem kom út í dag. Bætir flokkurinn við sig 4.6 prósentustigum frá fyrri könnun í september og mælist með 18.5 prósent. Miðflokkurinn mældist næst stærstur flokka Alþingis í könnun MMR í síðustu viku, en í könnun Zenter mælist hann með 11,6 prósenta fylgi, ef gengið yrði til kosninga nú. Mældist hann með 14.8 prósent í síðustu viku.
Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr stærstur, en Vinstri græn mælast með 12,7 prósent og Framsóknarflokkurinn hækkar örlítið, fer í 7,3 prósent úr 6,2 prósentum frá í september. Samanlagt mælast stjórnarflokkarnir því með 39,6 prósenta fylgi, en fengu 52,9 prósent í kosningum.
Sjálfstæðisflokkurinn -19,6
Samfylkingin – 18,5
Vinstri græn – 12,7
Miðflokkurinn – 11,6
Viðreisn – 11,3
Píratar – 10,9
Framsóknarflokkurinn – 7,3
Flokkur fólksins – 4,0
Aðrir – 4,0
Könnunin var gerð á tímabilinu 10.-14. október síðastliðinn en hún var send á könnunarhóp Zenter rannsókna. Í úrtaki voru 2.300 einstaklingar 18 ára og eldri en svarhlutfall var 53 prósent. Gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.