Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, hefur í gegnum félag sitt, Útgerðarfélag Reykjavíkur, eignast tæplega 53% meirihluta í félaginu eftir að gengið verður frá kaupum félagsins á hlut FISK Seafood fyrir tæplega átta milljarða króna, samkvæmt tilkynningu til Kauphallar Íslands.
Í tilkynningunni er vísað til þess að á hluthafafundi í Brim hf. þann 15. ágúst síðastliðinn var samþykkt að hækka hlutafé félagsins um 133.751.606 hluti sem skyldu afhentir Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf. Hlutfjárhækkun þessi hefur nú komið til framkvæmda. Í kjölfarið eykst eignarhlutur Útgerðarfélags Reykjavíkur hf. og tengdra aðila úr 701.743.876 hlutum í 835.495.482 hluti, sem samsvarar hlutfallslegri aukningu úr 38,51% í 42,71% af heildarhlutafé Brims hf.
FISK Seafood er sjávarútvegshluti Kaupfélags Skagfirðinga, en enn hafa fyrirvarar vegna kaupanna ekki verið uppfylltir, en gert er ráð fyrir að það verði gert fyrir 1. desember næstkomandi.
Útgerðarfélag Reykjavíkur hét áður Brim hf. sem Guðmundur var kenndur við. Nú er Guðmundur hinsvegar forstjóri þess Brims sem áður hét HB Grandi, en þegar Guðmundur keypti þriðjungshlut í HB Granda fyrir um 22 milljarða í fyrra, af Kristjáni Loftssyni í Hval hf. og tengdum félögum, myndaðist yfirtökuskylda og hefur Guðmundur smátt og smátt aukið hlut sinn, þar sem flestir hluthafar ákváðu að selja bréf sín ekki strax í fyrstu.