Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að Reykjavík verði leiðandi í aðlögun umferðarmerkinga í samræmi við tækninýjungar í umferð var samþykkt að framlagðri breytingartillögu meirihlutans með 22 atkvæðum en einn borgarfulltrúi sat hjá, samkvæmt tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.
Breytingartillagan var tæknilegs eðlis og laut að því að heildarúttekt umferðarmerkinga færi fram samhliða endurskoðun á reglugerð um umferðarmerki á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.
„Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því að tekið hafi verið jákvætt í tillöguna og hún samþykkt með smávægilegri breytingu,“
sagði Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi og tillöguflytjandi í bókun sem hún las upp í borgarstjórn við málið.
„Það eru ekki einungis tæknilegir möguleikar á sjálfakandi ökutækjum. Slík ökutæki eru þegar til, meira að segja hér á landi og þeim fer sífellt fjölgandi. Ég þekki dæmi þess að menn láti ökutækin keyra frá Reykjavík og alla leið í Reykjanesbæ án þess að snerta stýrið en einmitt þess vegna er nauðsynlegt að bregðast við. Spurningin er ekki sú hvenær slík ökutæki aka um götur borgarinnar, heldur miklu frekar sú hvenær okkur, mennskum persónum, verður jafnvel bannað að aka ökutækjum, og þvælast þannig fyrir með alla okkar mannlegu þætti, sem leiða oft á tíðum til mannlegra mistaka.“
Tillagan gerir ráð fyrir að gerð verði heildarúttekt á umferðarmerkingum með tilliti til nýrra umferðarlaga sem taka munu gildi um næstu áramót. Sérstaklega verði farið yfir umferðarmerkingar á vegum, s.s. yfirborðsmerkingar gatna og akstursstefnur, merkingar á gangbrautum, hjólastígum og hringtorgum. Þá var lagt til að úttektin færi fram samhliða endurskoðun á reglugerð um umferðarmerki á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.
Marta sagði jafnframt í ræðu sinni í borgarstjórn að við stæðum frammi fyrir byltingu í samgöngumálum. Með þessari staðhæfingu væri hún ekki að spá fyrir um eitt né neitt sem ekki lægi augljóslega fyrir hér og nú.
„Samgöngubyltingin er ekki bara á næstu grösum. Hún er hafin og áhrifa hennar er farið að gæta, hér á landi sem annars staðar. Hún mun augljóslega hafa síaukin áhrif á samfélag okkar, á allra næstu árum. Orkuskipti ökutækja er þegar hafin, hefur verið að aukast og mun aukast sífellt hraðar á næstu árum. Við erum þegar farin að sjá dæmi um ýmiss konar fisfarartæki hér í borginni sem bruna um göturnar, á gangstéttum og á göngu- og hjólastígum.“
Bókun Sjálfstæðisflokksins heild sinni:
Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því að tekið hafi verið jákvætt í tillöguna og hún samþykkt með smávægilegri breytingu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til ýmislegt er tengist nýjungum í samgöngum á yfirstandi kjörtímabili, m.a. snjallvædda ljósastýringu og snjallar gangbrautir. Við stöndum nú á þröskuldi tæknibyltingar í samgöngumálum. Sú bylting mun m.a. felast í orkuskiptum ökutækja, sjálfakandi ökutækjum, fjölgun fisfarartækja, byltingu í bestun og samræmingu umferðar og margfalt betri nýtingu umferðarmannvirkja. Í frumvarpi að nýjum umferðarlögum er tekið mið af þessari byltingu og stigið mikilvægt skref en í þeim er gert ráð fyrir að heimila akstur og prófanir sjálfakandi bifreiða. Á meðan löggjafinn hefur svarað kalli tímans um tæknibreytingar í samgöngumálum hefur Reykjavíkurborg sofnað á verðinum og er enn ekki farin að huga að þeim nauðsynlegu framkvæmdum sem ný tækni kallar á. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg bregðist við þeim öru tæknibreytingum sem eru að eiga sér stað í samgöngumálum og aðlagi innviði borgarinnar í samræmi við þær. Reykjavíkurborg, stærsta sveitarfélagið, á að hafa burði og metnað til þess að verða fyrsta sveitarfélagið til að innleiða sjálfkeyrandi tækni á götum borgarinnar.