Síðustu ár hefur þeim fjölgað jafnt og þétt sem ferðast til útlanda í sumarfríinu en í sumar varð breyting þar á. Tæplega 57% fullorðinna Íslendinga fóru til útlanda í sumar og eru það færri en í fyrra þegar hlutfallið var 62%. Hlutfallið hefur ekki verið lægra síðan sumarið 2016.
Nærtæk skýring er óvenju gott veður á höfuðborgarsvæðinu í sumar, samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup.
Konur fóru frekar til útlanda í sumar en karlar, og yngra fólk frekar en eldra. Íbúar höfuðborgarsvæðisins fóru frekar til útlanda en íbúar landsbyggðarinnar en þó er munurinn talsvert minni en fyrri ár, sem styður það að veðrið hafi haft áhrif. Fólk með meiri menntun og fólk með hærri fjölskyldutekjur er líklegra til að hafa farið út í sumar en það sem hefur minni menntun og lægri tekjur.
Þeir sem ferðuðust til útlanda í sumar gistu hver samtals 15 nætur að meðaltali á ferðalögum sínum og þeir sem ferðuðust innanlands gistu hver samtals 10 nætur að meðaltali.
Um sjö af hverjum tíu ferðuðust innanlands í sumar en það er svipað hlutfall og í fyrra.
Spurt var:
Ferðaðist þú eitthvað til útlanda í sumar?
Ferðaðist þú eitthvað innanlands í sumar?
Hversu margar nætur gistir þú samtals í útlöndum í sumar?
Hversu margar nætur gistir þú samtals á ferðalögum þínum innanlands í sumar?
Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 13. – 23. september 2019. Heildarúrtaksstærð var 1.612 Íslendingar 18 ára og eldri og þátttökuhlutfall var
55%. Einstaklingar voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.