Svein Harald Øygard, fyrrverandi seðlabankastjóri Íslands, segir í nýútkominni bók sinni „Í víglínu íslenskra fjármála“ að hruni íslensku bankanna hefði mátt afstýra á neyðarfundi bankastjóra viðskiptabankanna Glitnis, Landsbankans og Kaupþings, á heimili þáverandi seðlabankastjóra, Davíðs Oddsonar. Stundin greinir frá.
Øygard segir í bókinni, sem fjallar um orsakir og afleiðingar bankahrunsins á Íslandi, að fjöldi viðmælaenda hans hafi sagt að hægt væri að benda á nákvæmlega þá stund sem þegar örlög Íslands hafi verið ráðin.
Fundurinn var haldin sunnudaginn 26.mars 2006, þegar Landsbankinn hafði tilkynnt yfirvöldum að hann gæti ekki staðið við afborgun sem félli í gjalddaga daginn eftir og segir Øygard að þar hafi bankastjórarnir misst af tækifærinu til að afstýra hruninu, en þess í stað hafi Icesave litið dagsins ljós í kjölfarið:
„Þann dag fóru aðilar málsins af fundi og töldu sig hafa leyst vandann. Þeir hefðu betur farið af fundi með þá hugsun að fram undan væri tröllaukinn vandi.“ /
„Þarna misstu menn af tækifæri til þess að grípa í taumana. Það sem gerðist eftir þennan fund var að Landsbankinn kom á fót Icesave, einingu sem tók við innstæðum og magnaði þar með upp kerfislæga áhættu. Yfirleitt styrkja innstæður fjármagnssjóði bankanna. Í þessu tilviki var það ekki svo. Icesave óx úr engu upp í 4,5 milljarða punda. Þetta voru heitir peningar sem eltust við háa vexti. Helmingur innstæðnanna hvarf snemma árs 2008.“
Øygard nefnir einnig í bókinni að bankarnir hafi treyst á Seðlabankann eftir fundinn, til að fjármagna sig. Þeir hafi því aukið lán sín til eignarhaldsfélaga eigenda sinna sem lifðu hátt á þeim tíma:
„Hefði verið reynt að ná tökum á efnahagskerfinu daginn þann hefði mátt forðast hvellinn. Í stað þess að draga úr umfangi eigna sinna keyptu bankarnir eigin hlutabréf, juku lán til eigenda sinna og lögðu fram enn meiri peninga þegar þrýst var á eigendurna út af fyrirtækjasamsteypum, lystisnekkjum og þotum. Mikið af þessari gegndarlausu eyðslu var fjármagnað með skammtímalánum úr Seðlabankanum.“
Vísað er til ýmissa reyndra bankamanna á Norðurlöndunum í bók Øygard, sem öllum ber saman um að aðferð seðlabankans hafi verið glapræði. Slík fjármögnun hefði aðeins átt að vera til skamms tíma auk þess sem setja hefði átt ströng skilyrði fyrir lánunum og grípa hefði átt inn í atburðarrásina mun fyrr:
„Ekki er til ljósara merki um kreppu en banki sem falast eftir ofgnótt lausafjár. Ef einhver gerir það á neyðarbjalla að fara í gang í seðlabankanum og við sendum einhvern á vettvang. Fjármálaeftirlitið er ekki með neina peninga. Það er seðlabankinn sem er með peningana. Sá sem er yfir seðlabankanum á að gæta peninganna,“
er haft eftir Stefan Ingves, seðlabankastjóra Svíþjóðar í bókinni.
Øygard segir í bókinni að árin 2006-2007 hefði enn mátt afstýra hruninu, að einhverju leiti:
„Bara svo dæmi sé tekið hefði skilvirk löggjöf sem bannaði gjaldeyrislán getað komið í veg fyrir starfshætti sem síðar urðu mönnum til mikils skaða. Mörg heimili sem áttu um sárt að binda voru með óvenjuhátt hlutfall af bílalánum í erlendum gjaldeyri. Bílalánin voru óeðlilega þung. Síðar féllu dómsúrskurðir á þá lund að þau hefðu verið ólögleg á sínum tíma. Samt vissu bankarnir, Seðlabankinn og stjórnvöld um áhættuna.“
Þá segir Øygard að stjórnvöld þess tíma hefðu átt að takast á við málið í stað þess að vísa hver á annan, líkt og Rannsóknarskýrsla Alþingis beri með sér:
„Það er fánýtt að ræða um það hvaða ráðherrum og embættismönnum sé um að kenna. Allir viðstaddir sem sáu hvað var að gerast hefðu átt að lýsa yfir áhyggjum sínum og hefja aðgerðir til þess að tryggja umbætur. Eða segja af sér. Ráðherra getur ekki skellt skuldinni á aðra ráðherra. Embættismaður getur ekki skellt skuldinni á aðra embættismenn.“
Øygard nefnir einnig að ekki beri öllum saman um orsakir hrunsins, enn þann dag í dag, þó liðinn sé áratugur frá sjálfum atburðinum:
„Í skýrslum ráðherra og fyrirsvarsmanna ríkisstofnana fyrir rannsóknarnefnd Alþingis vísaði hver á annan um athafnaskyldu og enginn gekkst við ábyrgð. Hrekklaus maður gæti ímyndað sér að nú, rúmum tíu árum eftir hrunið, hefði orðið til einhvers konar sátt í samfélaginu um það sem hefði orsakað hrunið, hvar rætur þess lágu, hvað setti það í gang, og hver bar ábyrgð á því. Því er ekki að heilsa. Jafnvel í íslenskum vinahópi getur umræða um nýlega atburði í sögu Íslands leitt í ljós mismunandi skoðanir. Lítum til dæmis í Wikipediu. Þar er hrun Stoða skýrt með því að íslenska ríkisstjórnin hafi að hluta til þjóðnýtt Glitni. Enn þann dag í dag eru margir sem komu við sögu, bankamenn og stjórnmálamenn, að ráða til sín sagnfræðinga til að segja sögur sínar og móta frásögnina af atburðunum. Ýmist greiða þeir þeim sjálfir eða skattgreiðendur eru látnir blæða. Aðrir skrifa bara bækur.“
„Við erum að ákveða að við ætlum ekki að borga erlendar skuldir óreiðumanna,“ sagði Davíð í frægum Kastljósþætti fyrir sléttum 10 árum síðan, þann 7. október árið 2008. Sagði hann bankana hafa „farið dálítið gáleysislega“:
„Þegar skuldirnar eru orðnar þannig að íslensku bankarnir þurfa 50-55 milljarða evra á þremur til fjórum árum næstu – og geta ekki útvegað sér það því þeir markaðir eru lokaðir – þá værum við að setja slíkan skuldaklafa á börnin okkar og barnabörnin, að það væri þrældómur fyrir annarra manna sök.“
Davíð sagðist margoft hafa varað við þróuninni sem ætti sér stað og að illa gæti farið:
„Ég held að margir hafi talið að ég væri allt, allt of svartsýnn en ég þóttist sjá að þetta dæmi gæti aldrei gengið upp. Það sagði ég við bankana og lýsti því reyndar nákvæmlega við einn af bankastjórunum fyrir 12-14 mánuðum, hvaða staða gæti verið komin upp eftir þennan tíma. Ég hefði gjarnan viljað hafa haft rangt fyrir mér í því.“
Sjá einnig: Bók eftirmanns Davíðs vekur athygli:„Var Davíð Oddsson aðal útrásarvíkingurinn fyrir hrunið?“