„Við erum að ákveða að við ætlum ekki að borga erlendar skuldir óreiðumanna,“ sagði Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, í frægum Kastljósþætti fyrir sléttum 11 árum síðan, þann 7. október árið 2008. Sagði hann bankana hafa „farið dálítið gáleysislega“:
„Þegar skuldirnar eru orðnar þannig að íslensku bankarnir þurfa 50-55 milljarða evra á þremur til fjórum árum næstu – og geta ekki útvegað sér það því þeir markaðir eru lokaðir – þá værum við að setja slíkan skuldaklafa á börnin okkar og barnabörnin, að það væri þrældómur fyrir annarra manna sök.“
Davíð sagði að Glitnir væri ekki lengur á forræði Seðlabankans, heldur íslenskra stjórnvalda og það hefði verið óheppilegt hjá eigendum bankans að boða ekki strax til hluthafafundar í vikunni á undan, þegar ríkið þjóðnýtti Glitni með yfirtöku, er það setti 84 milljarða inn sem hlutafé.
Um þá miklu gagnrýni sem Davíð hefði fengið vegna þjóðnýtingarinnar, sem nefnd var sem stærsta bankarán Íslandssögunnar, sagði Davíð að menn litu væntanlega ekki á fund með seðlabankastjórum um fjárhagserfiðleika viðkomandi, sem kaffibollaspjall.
Davíð sagðist margoft hafa varað við þróuninni sem ætti sér stað og að illa gæti farið:
„Ég held að margir hafi talið að ég væri allt, allt of svartsýnn en ég þóttist sjá að þetta dæmi gæti aldrei gengið upp. Það sagði ég við bankana og lýsti því reyndar nákvæmlega við einn af bankastjórunum fyrir 12-14 mánuðum, hvaða staða gæti verið komin upp eftir þennan tíma. Ég hefði gjarnan viljað hafa haft rangt fyrir mér í því.“
Davíð viðurkenndi einnig að vera ábyrgur fyrir því að hafa opnað þjóðfélagið og gert það frjálsara í tíð sinni sem forsætisráðherra, og gefið mönnum færi á að láta ljós sitt skína:
„En ég get ekki borið endalausa ábyrgð á því að menn misnoti það frelsi.“
Þá nefndi Davíð að Íslendingar gætu enn komið sterkir út úr þessum erfiðleikum, ef sú leið sem stjórnvöld hefðu valið og Seðlabankinn vildi fara, yrði valin:
„Við ætlum ekki að láta þessa kreppu lenda með fullum þunga á íslenskum almenningi.“/
„Um leið og matsfyrirtækin og erlendar lánastofnanir átta sig á að við ætlum ekki á leggja þessa skuldaklafa á þjóðina mun staða Íslands gerbreytast og gengið styrkjast og ég held að við þurfum ekki langan tíma til þess.“
Davíð nefndi einnig í viðtalinu að það væri gott að eiga góða vini í Rússlandi og taldi fátt því til fyrirstöðu að fá risalán hjá Rússum til styrkingar gjaldeyrisvaraforðanum.
Þá taldi Davíð að hægt yrði að aðskilja erlendar skuldir og innlendar og greiða aðeins um 5-15 prósent af erlendu kröfunum, ekki ósvipað og gert var í Bandaríkjunum með fall bankans Washington Mutual:
„Þeir segja að þessir aðilar sem lánuðu peninga í alls konar verkefni sem ekki fengust staðist að lokum – kannski voru þau góð ef allt hefði gengið rosalega vel og engin vandamál hefðu komið í heiminum – […] lánuðu þessa peninga til að græða á því – ekkert ljótt við það – og þeir verða að sitja uppi með það, en ekki saklausir borgarar.“
Davíð þurfti að hætta sem Seðlabankastjóri skömmu síðar í kjölfar lagabreytinga sem Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra kom í gegn, eftir að Davíð brást ókvæða við beiðni Jóhönnu um að láta af störfum, til að endurvekja traust almennings á Seðlabankann. Eftirmaður hans var hinn norski Svein Harald Øygard sem tók við starfinu í lok febrúar 2009 tímabundið, þangað til Ingimundur Haraldsson var skipaður nokkrum mánuðum síðar.
Hefur norðmaðurinn skrifað nokkuð um Davíð og hrunið í nýútkominni bók, líkt og Eyjan hefur áður greint frá.
Sjá einnig: Bók eftirmanns Davíðs vekur athygli:„Var Davíð Oddsson aðal útrásarvíkingurinn fyrir hrunið?“