Aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins segir samtökin taka tölum Hagstofu Íslands með fyrirvara eftir tíð mistök í útreikningi stofnunarinnar. Hagtölur Hagstofu Íslands hefur þurft að leiðrétta óvenju oft á þessu ári og villurnar verið mun tíðari en áður. Í tvígang þurfti að leiðrétta tölur um landsframleiðslu með stuttu millibili og einnig þurfti að leiðrétta tölur um erlenda kortaveltu, svo einhver dæmi séu nefnd.
Fyrirtæki og hið opinbera byggja afdrifaríkar ákvarðanir sínar á tölum hagstofunnar og því hvimleitt ef þær eru ekki réttar. Fréttablaðið hefur eftir Ólafi Hjálmarssyni hagstofustjóra að villurnar séu ekki fleiri en hjá öðrum hagstofum sem sú íslenska beri sig saman við, þó vissulega hafi villurnar verið fleiri á þessu ári en notendur eigi að venjast, en það megi ekki rekja til þess að slakað hafi verið á í vönduðum vinnubrögðum:
„Þegar villur uppgötvast er metið hvert umfangið er og í framhaldinu birt frétt og leiðrétting til að trygga fullt gegnsæi þannig að notendur séu upplýstir. Jafnframt fer af stað ferli þar sem slík tilvik eru skráð og rýnd og fara þau einnig fyrir gæða- og öryggisráð Hagstofunnar, sem hefur meðal annars það hlutverk að tryggja að gripið sé til viðeigandi ráðstafana til að lágmarka hættuna á að slíkar villur endurtaki sig,“
segir Ólafur.
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir við Fréttablaðið að villurnar hafi verið óvenjumargar á árinu sem geti leitt til þess að traust fólks á stofnuninni minnki:
„Það hefur verið ansi þétt röð af mistökum hjá stofnuninni á þessu ári. Óraunhæft væri að ætla að það hafi ekki áhrif á traust á þessum gögnum.“
Aðspurður hvort Samtök iðnaðarins taki tölum Hagstofu Íslands með meiri fyrirvara en áður vegna þessa, segir Ingólfur svo vera:
„Já, að vissu leyti. Við förum varlegar í að draga ályktanir af hagtölunum án þess að skoða málið betur. Kjarni málsins er að það þarf að koma í veg fyrir villur sem þessar í framtíðinni eins og kostur er.“
Ingólfur segir að það sé hagsmunamál fyrir þá sem treysti á tölurnar að geta treyst á tölurnar, því oft sé um að ræða afar mikilvægar ákvarðanir sem geti varðað þjóðarhagsmuni:
„Oft á tíðum er um að ræða mjög stórar ákvarðanir. Til dæmis ákvarðanir í hagstjórn landsins. Nú er til umræðu á Alþingi frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár sem byggir á tölum Hagstofunnar. Þar er verið að taka ákvarðanir meðal annars um aðhaldsstig ríkisfjármála og þróun tekna og gjalda á grundvelli talna stofnunarinnar. Annað dæmi er stýrivaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans sem í þessari viku tekur ákvörðun um hvort eigi að breyta stýrivöxtum bankans og tekur í því mið af tölum um hagvöxt og fleiri þætti sem frá Hagstofunni koma. Þessar ákvarðanir varða hag fyrirtækja og heimila í landinu, og verða því að byggja á góðum grunni.“