Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi Hæstaréttardómari, fer yfir feril Markúsar Sigurbjörnssonar, fyrrverandi forseta Hæstaréttar sem lét nýverið af störfum sem Hæstaréttardómari, í langri og ítarlegri grein sem hann birtir á vefsvæði sínu í dag.
Óhætt er að segja að Jón Steinar beri Markúsi ekki vel söguna. Hann segir Markús hafa stórskaðað Hæstarétt með verkum sínum og valdið réttarfari í landinu ómældum skaða. Hann hafi notað þá miklu hæfileika sína í fræðunum sem hann sannarlega sé gæddur, til ills en ekki góðs.
Rifjar Jón Steinar upp þátt Markúsar í Hafskipsmálinu, Geirfinnsmálinu, Baugsmálinu og aðild hans að dómsmálum í kjölfar hrunsins, en Markús átti töluverðar fjárhæðir í verðbréfasjóðum Glitnis banka fyrir hrun sem hann síðar tapaði og telur Jón Steinar einsýnt að Markús hafi verið vanhæfur í dómsmálum sem snertu hrunið.
Grein Jóns Steinars er löng og ítarleg og hana má lesa með því að smella hér.