Árlegur aðalfundur Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar, var haldinn síðastliðna helgi í höfuðstöðvum Viðreisnar í Ármúla 42. Starri Reynisson var kjörinn forseti Uppreisnar, Emilía Björt Írisardóttir varaforseti, Arnar Snær Ágústsson gjaldkeri, Stefanía Reynisdóttir alþjóðafulltrúi og David Erik Mollberg viðburðastjóri.
„Viðreisn á að vera fremsti fánaberi frjálslyndis í íslenskum stjórnmálum. Eitt af mikilvægustu hlutverkum Uppreisnar er að sjá til þess að svo sé öllum stundum. Ég er með einstaklega vel mannaða stjórn á bak við mig og við munum halda þingflokki Viðreisnar vel við efnið,”
segir Starri í tilkynningu.
Á liðnu starfsári gekk Uppreisn til liðs við LYMEC, regnhlífarsamtök frjálslyndra ungliðahreyfinga í Evrópu. Deimantė Rimkutė, stjórnarmeðlimur LYMEC og borgarfulltrúi í Vilnius, var gestur á aðalfundinum. Í ávarpi sínu brýndi hún fundargesti um mikilvægi frjálslyndra gilda og Evrópusamstarfs, sem og mikilvægi þess að taka á hamfarahlýnun af alvöru þunga.