fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Tíu ára rússíbanareið Sigmundar: Klaufaleg formannskosning, reynsluleysið og erfiður skilnaður við Framsókn

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 20. janúar 2019 15:00

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Mynd: DV/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tíu ár eru síðan Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins. Hann virtist spretta upp úr engu en ferill hans hefur verið ein rússíbanareið. Eftir óvæntan sigur í klúðurslegri formannskosningu leiddi hann Framsóknarflokkinn til tveggja kosningasigra og varð forsætisráðherra Íslands. Eftir þrjú ár í embætti féll hann af söðli á sögulegan hátt eitt sunnudagskvöld í Kastljósi. Við tók tap í formannsslag og upprisa nýs flokks. Nýjasta vendingin á ferli Sigmundar eru hinar fordæmislausu upptökur af Klaustri þar sem hin reykfylltu bakherbergi voru opnuð upp á gátt. DV renndi stuttlega yfir þennan líflega tíma og ræddi við Eirík Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði.

Vandræðaleg uppákoma

18. janúar 2009.

„Réttkjörinn í embætti formanns Framsóknarflokksins … er Höskuldur Þórhallsson,“ tilkynnti formaður kjörstjórnar Framsóknarflokksins á landsþingi flokksins þann 18. janúar árið 2009 að Hlíðarenda. Salurinn fagnaði, Höskuldur kyssti frúna og arkaði upp á svið til að halda sigurræðuna. En þá var hann beðinn um að bíða með ræðuna uns kjörstjórn héldi skyndifund.

Eftir tíu vandræðalegar mínútur steig formaðurinn aftur í púltið og tilkynnti að mistök hefðu átt sér stað. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson væri réttkjörinn formaður Framsóknarflokksins. Formaður kjörstjórnar sagði af sér í kjölfarið. Þetta átti ekki eftir að verða síðasta skrautlega uppákoman á ferli Sigmundar.

Á þessum tíma var Framsóknarflokkurinn á algerum botni. Undir stjórn Jóns Sigurðssonar fékk flokkurinn sína verstu útreið árið 2007, aðeins 11,7 prósenta fylgi og sjö þingmenn. Guðni Ágústsson náði ekki vopnum flokksins að nýju og Valgerður Sverrisdóttir tók aðeins tímabundið við formennskunni. Margir töldu að flokkurinn ætti töluverða sök á bankahruninu eftir stjórnarsetuna með Sjálfstæðisflokknum frá 1995 til 2007 þar sem bankarnir voru einkavæddir.

Flokkurinn þurfi innspýtingu og hún fannst í Sigmundi sem var þá óþekktur á stjórnmálasviðinu en hafði vakið athygli sem einn af talsmönnum Indefence-hópsins. Hann var fyrrverandi fréttamaður og hafði látið sig varða skipulagsmál. Hann var ekki uppalinn í flokknum en hafði þau tengsl að faðir hans, Gunnlaugur Sigmundsson, hafði setið á þingi fyrir hann. Eiríkur Bergmann segir að Sigmundur hafi verið réttur maður á réttum stað.

„Það var foringjakreppa í Framsóknarflokknum. Indefence var sá stökkpallur sem kom honum áfram og nokkrir Framsóknarmenn fyrir norðan höfðu samband og hvöttu hann til að ganga í flokkinn og leiða hann.“

Eiríkur Bergmann Framsóknarflokkur Sigmundar hefðbundinn en með popúlíska hlið.

Öflug stjórnarandstaða

Sigmundur var heppinn. Rúmri viku eftir flokksþingið sleit Geir H. Haarde stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eftir að hinn síðarnefndi setti fram kröfur sem hann gat ekki sætt sig við. Í kjölfarið tóku vinstriflokkarnir sig saman og mynduðu minnihlutastjórn í samráði við Sigmund og Framsóknarmenn sem vörðu hana falli fram að kosningum. Sigmundur minnti reglulega á sig á þessum tíma og stóð á bremsunni ef þurfti.

Kosningarnar 2009 gengu í garð, vinstri flokkarnir unnu risasigra, Sjálfstæðisflokkurinn beið afhroð. Framsókn vann ágætan sigur, bætti við sig þremur prósentum og tveimur þingmönnum. Með Sigmundi sjálfum komu leiðtogar nýrrar kynslóðar. Gunnar Bragi Sveinsson að norðan, Sigurður Ingi Jóhannsson að sunnan og Vigdís Hauksdóttir í borginni.

Vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttir mátti þola fyrirsjáanlega erfiðleika og standa frammi fyrir sársaukafullum ákvörðunum. Ákvörðunum sem óþreyju- og örvæntingarfullur almenningur vildi ekki sjá. Sú allra óvinsælasta var Icesave-samningarnir og Sigmundur skipaði sér í lið með forsetanum og Indefence. Voru þær samningaumleitanir málaðar sem landráð. Vinstri stjórnin komst lúbarin yfir endamarkið, eftir að hafa komið fáum af sínum málum í gegn og þurfti að reiða sig á Borgarahreyfinguna til að halda meirihlutanum. Ísland var Sigmundar að taka.

Er Sigmundur popúlískur?

„Ég held að hann sé það ekkert endilega fyrst og fremst. En ég gerði eitt sinn rannsókn á Framsóknarflokknum undir hans forystu og komst að því að sú útgáfa af flokknum hefði popúlíska hlið þótt hann væri í grunninn hefðbundinn.“

 

Leiðréttingin
Stóra mál Sigmundar sem forsætisráðherra.

Leiðréttingin og Wintris

Í alþingiskosningunum árið 2013 vann flokkurinn fordæmalausan sigur. Fékk 24,4 prósent atkvæða og bætti við sig tíu þingmönnum. Sigmundur gat valið sér dansfélaga og ákvað að bjóða Bjarna Benediktssyni upp í sumarbústað. Sigmundur skyldi leiða dansinn sem forsætisráðherra, aðeins 38 ára og sá yngsti í lýðveldissögunni.

Stjórnarsambandið bar keim af þessari forystu og málum Sigmundar skyldi komið í gegn. Leiðréttingin mikla á verðtryggðum húsnæðislánum var stóra loforðið og kynnt fyrir þjóðinni undir lok árs 2014. Afturköllun umsóknar um aðild að Evrópusambandinu var einnig kynnt þetta ár og vorið 2015 færði Gunnar Bragi utanríkisráðherra starfandi forseta sambandsins bréf þess efnis.

Vorið 2016 virtist fátt geta ruggað bátnum. Sunnudagskvöldið 3. apríl fylgdust landsmenn hins vegar stjarfir með Kastljósi þegar hinn sænski Sven Bergman spurði hann: „What can you tell me about a company called Wintris?“ Panamaskjölin voru opinberuð og Sigmundur var þar á meðal.

Í kjölfarið reis almenningur upp og krafðist afsagnar. Sigmundur keyrði með þingrofsskjöl í frægri tösku til Bessastaða. Þar fékk hann neitun frá sínum helsta bandamanni, Ólafi Ragnari forseta, og stríðið var tapað. Sigmundur var sendur í leyfi og Sigurður Ingi tók við.

Eiríkur segir að Sigmundur sé um margt sérstakur stjórnmálamaður og að ferill hans hafi verið skrykkjóttur.

„Það má tína það til að hann varð strax forystumaður flokksins án þess að hafa reynsluna úr stjórnmálum. Það er alltaf erfitt hlutskipti, sama hver á í hlut og er Akkilesarhæll fleiri stjórnmálamanna. Þetta er sívaxandi vandamál því það er stöðugt ákall í samfélaginu um endurnýjun. Að fá inn fólk til forystu sem er utanaðkomandi og ekki talið óhreint af stjórnmálastarfi. Það gefst einfaldlega ekki vel því þjálfunin á lægri stigum skiptir verulega miklu máli. Sérstaklega þegar stjórnmálamenn mæta áskorunum. Sigmundur hefur lent í þessu.“

Var hann umdeildur í flokknum fyrir Wintris?

„Allir forystumenn eru umdeildir og hann líka. En hann var alveg óskoraður formaður. Þannig að hann var ekki svo umdeildur að vera nokkurn tímann valtur í sessi.“

 

Kastljós
Sigmundur gekk úr viðtali.

Fall, ris og annað fall

Sigmundur hafði alltaf ætlað sér að snúa aftur en innan flokksins voru ekki allir sáttir við þann ráðahag. Fór svo að Sigurður Ingi bauð sig fram gegn honum sem Sigmundur taldi reginsvik. Á hundrað ára afmælisflokksþingi þann 2. október í Háskólabíó voru örlögin ráðin. Sigraði Sigurður þar með 370 atkvæðum gegn 329 og Sigmundur stormaði út áður en dagskránni lauk með fréttamenn í halarófu á eftir sér.

Skömmu síðar gekk Framsóknarflokkurinn klofinn til kosninga og beið afhroð. Metið frá 2007 var slegið, aðeins 11,5 prósent og átta menn á þing. Þennan vetur töluðust Sigmundur og Sigurður Ingi vart við.

Þegar óvænt var blásið til kosninga ári síðar fengu bæði Sigmundur og hans helsti bandamaður, Gunnar Bragi, mótframboð um oddvitastöður. Í lok september þetta ár ákvað Sigmundur að segja skilið við flokkinn og stofna nýjan flokk, sem varð Miðflokkurinn, og með honum fór stór hópur Framsóknarmanna. Í kosningunum fengu báðir flokkar álíka fylgi, tæplega 11 prósent, og töldu sig get vel við unað. Eftir kosningarnar enduðu þeir hins vegar hvor sínum megin við stjórnarborðið.

Miðflokkurinn gekk í gegnum sveitarstjórnarkosningar um vorið 2018 og varð vel ágengt víða um land. Að öðru leyti sigldi hann lygnan sjó þar til í lok nóvember þegar Sigmundur og fimm aðrir þingmenn voru teknir upp á Klaustri. Um fátt annað hefur verið rætt í stjórnmálunum síðan.

Hver myndir þú segja að staða hans og Miðflokksins sé í dag?

„Staða bæði hans og flokksins er þröng eftir nýorðna atburði. Miðflokksmenn eru einangraðir á þinginu, í það minnsta tímabundið. Við vitum hins vegar ekki hvaða áhrif þessir atburðir hafa til lengri tíma. Framsóknarflokkurinn og Miðflokkurinn voru að herja á sömu mið og það var talið að aðeins annar þessara flokka gæti lifað af með góðu móti. Miðflokkurinn var á góðri siglingu á meðan Framsóknarflokkurinn stóð höllum fæti, meðal annars vegna stjórnarsamstarfsins. Í seinustu könnunum hefur þetta snúist við.“

Velt úr sessi
Sigurður Ingi kjörinn formaður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Í gær

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?