fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Eyjan

Völva 2019: Miðflokksmenn snúa aftur, erfitt ár Katrínar og hneykslismál hjá Bjarna Ben

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 2. janúar 2019 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Blaðamaður DV er mættur stundvíslega fyrir utan hús í útjaðri borgarinnar og hringir dyrabjöllunni. Til dyra kemur hlýleg og brosandi eldri kona. Loksins var komið andlit við röddina sem hann hafði rætt við í gegnum síma í nokkur skipti. Eftir nokkra umhugsun hafði þessi geðuga kona samþykkt að spá fyrir um hin ýmsu mál sem brenna á þjóðinni á næsta ári. Ákveðið var að leita á nýjar slóðir að þessu sinni og það var hægara sagt en gert að finna heppilegan spámiðil.

Sú er tók að sér verkefni að lokum hefur aldrei auglýst þjónustu sína en orðspor hennar hefur borist víða á undanförnum árum. Í síðasta samtali fyrir fund okkar kvaðst hún vera stressuð vegna verkefnisins. „Þetta reynir verulega á. Ég læt í raun hugann líða og byggi spárnar mínar á þeim tilfinningum sem koma upp þegar ég hugsa um tiltekinn einstakling eða málefni. Þessi skilaboð koma að handan, ég hef verið næm frá því að ég var barn. Ég treysti líka mikið á drauma. Síðan ég ákvað að verða við þessari beiðni þá hef ég haft ægilegar draumfarir. Svo er það ákveðin list að reyna að túlka draumana rétt. Stundum verður merking þeirra ekki ljós fyrr en löngu síðar,“ segir völvan.

Við setjumst niður í hlýlegu eldhúsinu og völvan býður blaðamanni upp á rótsterkt kaffi. Hún dregur upp blað með ýmsum punktum sem hún hefur samviskusamlega skrifað niður. Skyndilega breytist viðmót hennar og hún byrjar að þylja upp óorðna atburði. Blaðamaður prísar sig sælan yfir upptökuforritinu á símanum. Annars ætti hann fullt í fangi með að fylgja völvunni eftir.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands.

 

Ríkisstjórnarsamstarfið nötrar

Það þarf kannski ekki að koma mikið á óvart að völvan skynjar að það muni hrikta í ríkisstjórnarsamstarfi Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á næsta ári. Hún segir að það geti vel farið svo að það slitni upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu á næsta ári. „Mig dreymdi leiðtogana þrjá hvern á sínum staðnum og gríðarstóran vegg milli þeirra. Þau freistuðu þess ekki að klífa þann múr. Það kann að þýða gríðarlegt ósætti eða jafnvel stjórnarslit á síðari hluta næsta árs. Ég skynja það sterkt að Vinstri græn munu stökkva á slíkt tækifæri,“ segir völvan. Að hennar sögn hafi Vinstri græn þurft að gera mikið af óþægilegum málamyndunum og grasrót þeirra væri farin að ókyrrast verulega. Yfirstjórn flokksins veit að flokkurinn mun bíða afhroð í næstu kosningum ef fram heldur sem horfir. Það mun ýta enn frekar undir óánægjuna með ríkisstjórnarsamstarfið. Stjórnvöld munu beita sér grimmt í kjarasamningabaráttunni og almannarómur verður sá að þau dragi taum atvinnurekenda. Stuðningsmenn íhaldsins og Framsóknarmanna munu mala af ánægju á meðan kjósendur Vinstri grænna munu hvæsa. Hún sér fyrir sér gríðarleg innbyrðis átök í flokknum og álagið á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra verður afar mikið.

Hefur áhyggjur af Katrínu

Völvan segir að framundan sé erfitt ár hjá Katrínu. Fyrir utan að sinna þeim fjölmörgu, viðamiklu verkefnum sem forsætisráðuneytið krefst þá þarf hún að slökkva elda í gríð og erg innan Vinstri grænna, enda er hluti grasrótarinnar afar ósáttur við stjórnarsamstarfið. Þá verður hún fyrir óvægri gagnrýni á samfélagsmiðlum og þrátt fyrir þykkan skráp þá nær slíkt að lokum í gegn. „Ég hef áhyggjur af Katrínu og held að hún verði að hugsa meira um sjálfa sig og það sem skiptir máli. Ég sé hrikta í stoðum einkalífs hennar en allt ætti að fara vel ef tekist er strax á við vandamálið,“ segir völvan.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

 

Framtíð Framsóknarflokksins

Þá munu verða umskipti innan Framsóknarflokksins. Það hefur öllum verið ljóst að Lilja Alfreðsdóttir er framtíð flokksins og hún mun taka við sem formaður á næsta ári. Að sögn völvunnar fer Sigurður Ingi Jóhannsson þó ekki frá glaður í bragði. „Hann kann því vel að vera í forystunni, þó að sú forysta hafi komið óvænt upp í hendurnar á honum. Þetta er traustur og góður maður, en ekki einhver sem sópar að sér atkvæðum. Það getur hins vegar Lilja gert og að lokum ákveður Sigurður Ingi að hlusta hinar háværu raddir innan flokksins og stíga til hliðar úr formannssætinu. Hann er þó hvergi nærri hættur í pólitík,“ segir völvan. Hún slær þó einn varnagla. „Ég skynja einhverjar tengingar Lilju við Seðlabanka Íslands. Það var nokkuð skýrt í draumum mínum. Lilja starfaði þar á árum áður og þekkir þar hvern krók og kima. Það gæti því vel verið að innra með henni bærist áhugi á stóli seðlabankastjóra.“

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Hún segir að þótt allt virðist með kyrrum kjörum innan þingflokks Framsóknarflokksins þá kraumi óánægja þar eins og annars staðar. „Það eru nokkrir þingmenn sem telja að þeir eigi að hljóta stærri vegsemdir, til dæmis Þórunn Egilsdóttir. Það er þó algjört ofmat enda eru flestir sammála um að Þórunn sé illgresi í grænum garði Framsóknarflokksins,“ segir völvan án þessa að blikna.

 

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

 

Hneyksli varðandi viðskipti Engeyinga

Það er kátt innan Sjálfstæðisflokksins enda gengur Sjálfstæðismönnum allt í haginn þessa dagana. Völvan segir að leiðtogar Sjálfstæðisflokksins þurfi nánast að klípa sig daglega til þess að vera fullvissir um að stjórnarsamstarfið sé ekki einhvers konar draumur. Allt gengur flokknum í hag, helstu mál fljúga í gegn og samstarfsflokkarnir eru undanlátssamir. Þá hafa hin ýmsu hneykslismál haldið kastljósinu frá helstu forystumönnum flokksins. Það á þó eftir að breytast. „Hingað til hefur ekkert bitið á Bjarna Benediktsson. En um mitt næsta ár mun koma upp hneykslismál sem tengist afskiptum Bjarna að viðskiptum fjölskyldumeðlima. Þetta mál mun reynast Bjarna afar erfitt. Ég sé að um hann leika vindar elds og íss. Skyndilega er hann einn,“ segir völvan.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Ágúst Ólafur bíður færis

Völvan segist skynja að stemmingin innan Samfylkingarinnar, að minnsta kosti í þingflokknum, sé góð en þó eru blikur á lofti. Leiðtogar flokksins liggi undir feldi um hvernig eigi að tækla mál Ágústs Ólafs Ágústssonar. „Ágúst Ólafur vill taka aftur sæti á þingi eftir hið sjálfskipaða leyfi sitt. Hann mun þó reyna að draga endurkomuna þar til ljóst er hvað verði um Gunnar Braga og Bergþór. Ef þeir segja af sér þá er staða hans mun erfiðari. Ef ekki þá mun það gera Ágústi Ólafi kleift að snúa aftur en þó eru ekki allir í forystu flokksins sáttir við það. Ég skynja að Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, vill að þingmaðurinn segi af sér, hann er góður í að segja það sem almúginn vill heyra,“ segir völvan.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

 

Dagur að kveldi kominn

Hún segir að allt annað andrúmsloft ríki meðal Samfylkingarfólks innan borgarstjórnar. Þar ríkir ótti og tortryggni. „Braggamálið hefur skaðað Dag B. Eggertsson verulega. Í draumum mínum sé ég hann helsærðan. Hann vonast eftir því að vera sloppinn en handan við sjóndeildarhringinn brýna óvinirnir vopnin, blóðþyrst stríðsgyðja þar fremst í flokki. Varnirnar í kringum borgarstjóra munu halda enn um sinn en á fyrstu mánuðum hins nýja árs þá munu koma fram nýjar upplýsingar í málinu sem valda usla. Boðberinn verður illvígur minkur. Dagar borgarstjóra eru raun og veru taldir,“ segir völvan. Hún segir að nýr leiðtogi muni taka við taumunum í borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar. „Það verður ljóshærð kona en hún staldrar stutt við. Augu hennar eru á landsmálunum,“ segir völvan.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.

Leyndarhyggja leggst illa í Pírata

Hjá Pírötum logar allt í óreiðu, nú sem endranær. „Það eru mikil átök innan flokksins, á öllum vígstöðvum. Þar er eins og flokksmenn fagni unnum sigrum með því að hella í sig rommi og halda villtar veislur. Síðan sest einhver í vitlaust sæti og þá er kutum brugðið á loft. Undanfarin ár hefur eins konar leyniklíka verið starfrækt innan flokksins. Uppgjör fór fram undir lok síðasta árs án þess að mikið bæri á en sá ófriður mun halda áfram inn á nýtt ár. Mestu átökin verða innan borgarstjórnararms flokksins en þar á bæ verða menn ekki á eitt sáttir við starfshætti Dóru Bjartar Guðjónsdóttur og hennar fylgismanna. Ósættið mun varða þá leyndarhyggju sem ríkir varðandi ýmis störf meirihlutans sem Dóra Björt tekur þátt í að viðhalda. Það er þvert gegn vilja flokksmanna og það leiðir af sér áflog,“ segir völvan.

Dóra Björt Guðjónsdóttir. Mynd/DV
Björn Leví Gunnarsson
Mynd-Hanna/DV

 

Björn Leví vekur aðdáun

Þá sér völvan fyrir sér að árið verði gott fyrir Björn Leví Gunnarsson, þingmann Pírata. „Hann mun veita stjórnvöldum gott aðhald og vekja aðdáun fyrir. Þá mun hann vinna sigur í baráttu sinni gegn óhóflegum kostnaðargreiðslum til þingmanna, sérstaklega þegar þeir eru í kosningabaráttu. Björn beið tímabundinn ósigur á árinu sem er að líða en þetta er þrjóskur maður með eindæmum og barátta hans mun skila árangri. Þá verður hann einnig í fylkingarbrjósti í baráttunni gegn veggjöldum og mun vekja verðskuldaða athygli fyrir,“ segir völvan.

Gunnar Bragi og Sigmundur Davíð.

Sigmundur telur sig órétti beittan

Þegar völvan segist hugsa til Sigmunds Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, þá komi ein tilfinning sterk upp í huga hennar, einmanaleiki. „Sigmundur er reiður yfir Klaustursfárinu og telur sig hafa verið beittan órétti. Þjóðfélagsumræðan hefur engin áhrif á á skoðun hans. Hann hefur aldrei getað hegðað sér í takt við það sem almenningur vill. Sigmundur Davíð er orðinn pólitískt eyland en góðu fréttirnar fyrir hann eru að meirihluti kjósenda Miðflokksins mun glaður búa á þeirri eyðieyju með honum. Hann mun því geta setið óáreittur áfram á þingi en hann er verulega laskaður. Málaferlin gegn Báru Halldórsdóttur munu aðeins auka skaðann, það hefði verið farsælla að reyna að láta málið gleymast.

Bergþór Ólason.

Elska að vera þingmenn

Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason eru ekki af baki dottnir og munu freista þess að setjast aftur á Alþingi. „Ég finn það sterkt að þeir elska báðir að sitja á þingi, sérstaklega Bergþór sem hefur stefnt að því leynt og ljóst allt sitt líf. Það mun því reynast honum erfitt að segja sig frá þingstörfum. Í febrúar/mars munu þeir snúa aftur og treysta á að þjóðin sé farin að hugsa um annað. Ég sé þó fyrir mikil mótmæli vegna endurkomu þeirra, en þeir munu reyna að standa það af sér,“ segir völvan.

Liðstyrkurinn sem allir sáu fyrir

Miðflokkurinn mun síðan fá liðstyrk næsta haust. Þá munu Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson tilkynna að þeir hafi róið á árabát út í eyðieyju Sigmundar Davíðs, glaðir í bragði. „Það telst þó varla vera spádómur, heldur formsatriði,“ segir völvan kímin.

Ólafur Ísleifsson. Þingmaður Flokks fólksins.
Karl Gauti Hjaltason mun samkvæmt völvunni ganga til liðs við Miðflokkinn næsta haust.

 

Vigdís versta martröð borgarstjórnar

Þá mun vegur Vigdísar Hauksdóttur vaxa á nýju ári. Hún mun vera óþreytandi að djöflast í borgarstjórnarmeirihlutanum og með því vinnur hún sér smátt og smátt inn virðingu pólitískra andstæðinga. „Það er mikil orka og dugnaður í kringum Vigdísi þó að hún sé helst til hvatvís og átakasinnuð. En hún er akkúrat það sem borgarstjórn þurfti á að halda og hún mun verða óþreytandi í að velta upp hverjum steini til þess að koma Degi frá völdum. Henni mun takast það að lokum,“ segir völvan.

Vigdís Hauksdóttir.

Fjármál vekja upp spurningar

Inga Sæland heldur glöð inn í nýtt ár. Klaustursmálið kom á heppilegum tíma fyrir hana. Karl Gauti og Ólafur voru við það að yfirgefa Flokk fólksins en þess í stað gat hún nýtt fárið til þess að sparka þeim kónum á eigin forsendum og skora pólitískt snertimark í leiðinni. „Gleði Ingu verður þó skammvinn. Það mun blossa upp gagnrýni á hana í tengslum við fjármál flokksins sem enginn hefur yfirsýn yfir nema hún. Hún mun verða fyrir mikilli gagnrýni vegna þess að hún neitar að láta prókúru flokksreikninganna af hendi. Hún kann vel að meta hinn nýja lífsstíl sinn sem fylgir setunni á Alþingi og í lok árs, þegar fylgi Flokks fólksins verður komið í nýjar lægðir, fer hún að örvænta mjög,“ segir völvan. Hún segist ekki sjá fyrir sér að Inga verði langlíf í pólitík.

Vont að skipta engu máli

Völvan segir að ládeyða muni einkenna Viðreisn á næsta ári. „Það hefur enginn áhuga á Evrópusambandinu í þessu árferði og flokkurinn á því erfitt með að láta til sín taka. Það versta fyrir stjórnmálaflokk er að skipta engu máli. Úttekt á störfum þingmanna á næsta ári mun verða til þess að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, verður sökuð um að mæta illa og svíkjast þannig um í vinnunni,“ segir völvan.

Þetta er aðeins brot úr spá völvunnar fyrir árið 2019. Meira er hægt að lesa í Völvublaði DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Enginn heimsendir þótt Framsókn sé í rusli – er Guðni Ágústsson ekki fósturlandsins Freyja?

Orðið á götunni: Enginn heimsendir þótt Framsókn sé í rusli – er Guðni Ágústsson ekki fósturlandsins Freyja?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Svarthöfði skrifar: Staksteinar beita Albaníuaðferðinni gegn varaformanni Sjálfstæðisflokksins

Svarthöfði skrifar: Staksteinar beita Albaníuaðferðinni gegn varaformanni Sjálfstæðisflokksins
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

700 milljón króna jákvæður viðsnúningur Hofgarða – DV og miðlar Fjölmiðlatorgsins reknir með hagnaði

700 milljón króna jákvæður viðsnúningur Hofgarða – DV og miðlar Fjölmiðlatorgsins reknir með hagnaði
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðlaugur Þór gagnrýnir Jóhann Pál og segir hann skreyta sig með stolnum fjöðrum

Guðlaugur Þór gagnrýnir Jóhann Pál og segir hann skreyta sig með stolnum fjöðrum