Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, skrifar í Morgunblaðið í dag þar sem hann fer yfir það sem betur hefði mátt fara í kjölfar hrunsins. Er hann gagnrýninn á Sjálfstæðisflokkinn, Alþingi og Evrópusambandið svo eitthvað sé nefnt, en athygli vekur að Tómas talar vel um Jón Baldvin Hannibalsson.
Síðustu daga hafa fjölmargar konur lýst óeðli Jóns Baldvins í sinn garð og ná elstu frásagnirnar allt til ársins 1967 þegar Jón var kennari í Hagaskóla, en nýjustu frásagnirnar eru frá síðasta ári. Er hann sagður hættulegur.
Tómas nefnir að stjórnmálaflokkar hafi ekki náð vopnum sínum og nefnir skarðið sem Jón Baldvin skildi eftir sig:
„Flokkarnir þurfa öflugt flokksstarf og öfluga formenn. Margt má eflaust segja um Jón Baldvin Hannibalsson, en það verður ekki af honum skafið að hann var leiðtogi. Brautin sem hann ruddi orkaði tvímælis, svo vægt sé tekið til orða. Það segir hins vegar sína sögu um leiðtogahæfileikana, að löngu eftir að Jón Baldvin hafði látið af formennsku hlutu sósíaldemókratar íslenskir – hvaða flokksheiti sem þeir kusu að skýla sér á bak við – ekki sáluhjálp, fyrr en gamli foringinn ráðlagði þeim að flytja ekki inn í brennandi hús og átti þar við Evrópusambandið. Viðvörun Jóns dugði þó ekki öllum til. Heimilisfangið – þar sem núverandi formaður Samfylkingarinnar brennur í skinninu að hýsa þjóðina til framtíðar – er sjálf brunarústin, sem Jón Baldvin varaði við.“
Tómas segir að umræðan undanfarið bendi ekki til þess að Alþingi „gæti aðhalds eða umhyggju fyrir aflafé heimilanna“ og segir að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að hverfa aftur til grunngilda sinna:
Mínum gamla flokki hefur ekki tekist að öðlast fyrri styrk og fer því raunar fjarri. Þó hefur hann löngum verið talinn trúverðugur í efnahagsmálum, sem nú standa vel þótt blikur séu á lofti. Eftir gjörningaveðrið sem gekk yfir þjóðina í kjölfar kreppunnar, vissi Sjálfstæðisflokkurinn hvorki fyllilega í hvorn fótinn ætti að stíga né hvort styðja ætti manninn, sem taldi að Íslendingar ættu ekki að greiða skuldir óreiðumanna. Það kom yfir flokkinn umkomuleysi sem kostaði hann mikið. Á ögurstundu var ekki laust við að skipið ræki fyrir veðri og vindum. Menn geta leyft sér að hika á örlagastundu til að freista þess að sigla milli skersins og bárunnar. En til lengdar þarf fumlausa siglingu og góða kjölfestu.
Hugsjónir Sjálfstæðisflokksins taka lit af samtímanum, hver sem hann er. En þær breytast ekki í grunninn. Virðing fyrir einstaklingnum og frelsi hans til að taka ábyrgð á eigin lífi heldur sínu gildi. Ríkisvald þarf að njóta tiltrúar og hvíla á sterkum efnahagslegum grunni. En þrúgandi ríkisbákn og sligandi skattheimta grafa undan lýðræðinu.
Brýnt er að forysta Sjálfstæðisflokksins tali á nýjan leik af einurð fyrir grunngildum sínum. Með þeim hætti einum getur flokkurinn náð sínum fyrri styrk og á nýjan leik orðið boðberi skynsemi í íslenskum stjórnmálum og kjölfestan í vönduðu stjórnarfari.“
Þá telur Tómas Ingi að embættismenn búi nú við minna aðhald en áður og nefnir þegar Jóhanna Sigurðardóttir hreinsaði til í Seðlabankanum:
„Sú var tíðin að þremur seðlabankastjórum þess banka var vikið úr starfi með sérstakri lagasetningu – og það fyrir engar sakir. Þó lá það fyrir að einn seðlabankastjórinn hafði haft uppi þau orð að Íslendingar ættu ekki að greiða skuldir óreiðumanna. Það fékk hann síðan staðfest í dómsorði EFTA dómstólsins. Bankastjórarnir voru sviptir embætti á grundvelli lögleysu og pólitískra undirmála.
Mun meira umburðarlyndi ef ekki hreint tómlæti ríkir nú innan ríkisstjórnar Íslands í garð núverandi seðlabankastjóra. Hann hefur árum saman misbeitt valdi sínu og brotið lög m.a. á fyrirtækjum í sjávarútvegi, eins og nýgengnar niðurstöður í dómskerfinu sýna glögglega. Ein af sérkennilegri afleiðingum fjármálakreppunnar virðist vera sú að æðstu embættismenn búa nú við minna aðhald en áður.“