fbpx
Sunnudagur 12.janúar 2025
Eyjan

Sigurður G. segir Sjálfstæðisflokkinn hafa bolað sér úr starfi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 14. janúar 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður G. Tómasson, fyrrverandi dagskrárstjóri Rásar 2, hefur marga fjöruna sopið á ferli sínum sem fjölmiðlamaður. Í opinskáu viðtali við DV lýsir hann því hvernig hann var hrakinn úr starfi dagskrárstjóra Rásar 2 á sínum tíma og skilinn eftir atvinnulaus. Sigurður rekur það til bolabragða Sjálfstæðisflokksins í útvarpsráði sem hafi ekki unnt sér hvíldar fyrr en hann hafði verið hrakinn frá stofnuninni og hafi stundað grímulausar pólitískar ráðningar. Í kjölfar atburðanna á Rás 2 veiktist Sigurður alvarlega, fékk insúlínháða sykursýki og varð blindur í kjölfarið. Hann telur veikindi sín eiga sér orsök þeim órétti sem hann var beittur en ónæmiskerfi hans gaf sig undir álaginu.

Sigurður hóf feril sinn sem útvarpsmaður á Bylgjunni og stjórnaði fyrstu útsendingunni þar sem fór í loftið árið 1986, um leið og útvarpsrekstur var gefinn frjáls hér á landi: „Fyrsti viðmælandinn var Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóri,“ segir Sigurður og hlær, enda telur hann það vera broslega staðreynd í ljósi þeirra afskipta sem flokkurinn hafði af honum síðar.

Frá Bylgjunni lá leiðin á Rás 2 þar sem Sigurður varð einn þekktasti og virtasti útvarpsmaður landsins. Árið 1992 var hann síðan ráðinn dagskrárstjóri Rásar 2. Þetta var á miklum blómatíma í útvarpsrekstri, internetið var ekki komið til sögunnar og flestir hlustuðu á þætti á borð við Dægurmálaútvarpið og Þjóðarsálina á Rás 2.

„Útvarpið er kannski minni partur af daglegu lífi landsmanna núna, en eftir að netmiðlarnir komu til sögunar hafa þeir mikið til komið í staðinn fyrir útvarpið,“ segir Sigurður.

Dýravinurinn Sigurður heldur hænur og fleiri dýr.

Reykir kjöt og unir sér með dýrum í Mosfellsdalnum

DV tók hús á Sigurði í Mosfellsdalnum, nánar tiltekið að Sveinseyri sem liggur við fallegt og skógi vaxið svæði ekki langt frá Varmá. Þar býr Sigurður í húsi með eiginkonu sinni, Steinunni Bergsteinsdóttur, textílhönnuði. Hjónin eru með hænsni, þrír kettir búa á heimilinu og einn smáhundur, hin 12 ára gamla Dimmalimm, sem hvílir í fangi Sigurðar allan tímann sem viðtalið fer fram. „Þessi á mig,“ segir Sigurður um hundinn, sem er ákaflega hændur að húsbóndanum. Tveir kattanna spóka sig líka í stofunni og eru hinir vinalegustu við gestina; blaðamanninn og ljósmyndarann.

Fyrir utan gefur að líta reykkofa en Sigurður hefur lengi fengist við að reykja kjöt. Er það nokkur búbót fyrir hann að reykja kjöt fyrir fólk. „Við höfum búið hér í 11 ár en ég fór reyndar að reykja kjöt löngu áður en við fluttum hingað. Ég kaupi oft kjöt úr búðum til að reykja og fæ stundum kjöt frá vini mínum, Jóhannesi á Heiðabæ. Ég er ættaður úr Þingvallasveit og við köllum þetta Þingvallareykingu. Ég kynntist þessu fyrst í Þingvallasveitinni, á Kárastöðum. Þar var nafni minn, Sigurðsson, sem kom þangað sem vinnumaður árið 1906 og fór aldrei aftur, en dó þar á níræðisaldri. Hann var mikill snillingur þessi karl, af frægu hleðslumannakyni úr Ölfusi, nánar tiltekið frá Tannastöðum. Siggi gamli var hleðslumaður og hlóð frægar traðir á Kárastöðum. Siggi gamli reykti líka kjöt og það gerði líka Mansi frændi minn á Kárastöðum, sem og silung úr Þingvallavatni. Síðasta hleðsluverk Sigga var reykhúsið við Kárastaði en það stendur enn.“

Sigurður hefur stundað kjötreykingu í um 30 ár en reykhúsið fyrir utan heimili hans var hannað eftir hans hugmynd. „Í staðinn fyrir torf nota ég trjástubba úr skóginum hérna í kring. Vinir mínir í Skógræktarfélagi Reykjavíkur hjálpuðu mér mikið,“ segir Sigurður en hann er í stjórn félagsins og var áður formaður þess.

 

Tíkin Dimmalimm hvíldi á húsbónda sínum allt viðtalið.

Þegar ekki tókst að bola honum úr starfi var staðan lögð niður

Við víkjum aftur talinu að umbrotatímunum á Rás 2 þegar Sigurður var flæmdur úr starfi:

„Allan tímann var flokkurinn að atast í mér með pólitískum afskiptum og ýmsum þvingunaraðgerðum. Á þessum tíma var það þannig að útvarpsráð réð fréttamenn en við réðum dagskrárgerðarfólk. En Sjálfstæðismenn vildu fá þetta líka í útvarpsráð, vildu fá að greiða atkvæði um hverjir væru ráðnir í dægurmálaútvarpið. Á bak við þetta stóð Björn Bjarnason sem varð menntamálaráðherra árið 1995. Við höfðum ráðið fólk eftir mjög faglegu mati þar sem pólitík kom aldrei til álita. Það þekkja allir sem unnu með mér á Rás 2 og vita hvernig þetta var. Við létum umsækjendur til dæmis taka viðtöl eða skrifa handrit og við héldum til haga þessum gögnum. En útvarpsráð leit aldrei nokkurn tíma á neitt af þessu og réð algjörlega eftir pólitískum línum,“ segir Sigurður.

Hann skýrir síðan frá því að þegar nálgaðist fimm ára ráðningartíma hans sem dagskrárstjóra hafi Sjálfstæðismenn róið að því öllum árum að bola honum úr starfi. „Ráðningartími útvarpsstjóra var skilgreindur fimm ár og því þurfti að endurráða hann eftir þann tíma ef hann hygðist sitja áfram. Útvarpsráð tók hins vegar upp á því skyndilega að auglýsa starf mitt laust áður en ráðningartíminn var útrunninn. Ég fékk spurnir af því að Gunnlaugur Sævar, Sjálfstæðismaður sem þá var formaður útvarpsráðs, hafi verið í laxveiði í Borgarfirði skömmu eftir að staðan var auglýst. Sagði mér maður sem þar var viðstaddur að Gunnlaugur hafi lítinn tíma haft fyrir laxveiði því hann var alltaf í símanum að plotta hverjir ættu að sækja um stöðuna og hvern ætti að ráða. Svona var nú þetta.“

Það fór nú samt svo að Markús Örn Antonsson, þáverandi útvarpsstjóri, endurréð mig þó að ég væri með minnihluta í útvarpsráði. En þá var gripið til þess ráðs að leggja niður stöðu dagskrárstjóra og ráða þess í stað ritstjóra dægurmálaútvarps. Í þessa stöðu var ráðin Sjálfstæðiskonan Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Þetta var fullkomlega pólitísk ráðning og ekkert annað. Mér var ekki boðið neitt starf í staðinn, ekki sem dagskrárgerðarmaður, ekki einu sinni starf sendils.“

Sykursjúkur Sigurður veiktist þegar honum var bolað af Ríkisútvarpinu.

Fékk sykursýki og varð blindur

Þegar þarna var komið sögu veiktist Sigurður alvarlega. „Ónæmiskerfið bilaði upp úr þessu og ég fékk sykursýki 1. Ég hef haldið því fram að það hafi verið vegna álagsins sem þessi aðför hafði í för með sér, en það er auðvitað ekki hægt að sanna það. Ég hélt fyrst bara að ég væri að verða þunglyndur af álaginu, en ég varð alveg þreklaus. En svo reyndist þetta vera insúlínháð sykursýki sem fólk fær yfirleitt ekki á fullorðinsaldri. Ég var veikur og gat ekki varið mig fyrir þessari aðför sem ég varð fyrir. Ég áttaði mig kannski ekki á því á sínum tíma, en mér varð það ljóst síðar.“

Þegar Sigurður hafði náð sér nokkuð starfaði hann um hríð sem lausamaður en svo versnaði heilsan aftur. „Sjónin fór að bila örfáum árum seinna. Þetta er augnbotnshrörnun en hún magnast upp vegna sykursýkinnar sem margfaldar hraðann á hrörnuninni.“ Um nokkurra mánaða skeið var Sigurður alveg blindur en seinni árin hefur hann oftast verið nálægt fullri blindu. Sjón hans hefur batnað eftir augnsteinsaðgerð í haust en ennþá telst hann lögblindur: „Ég sé niður fyrir fætur mér í góðri birtu, það er allt og sumt.“

Sjálfstæðisflokkurinn breyttist í alræðisflokk – VG svikarar

Sigurður segist aldrei hafa verið með pólitískan áróður í störfum sínum á Rás 2. „Það héldu reyndar margir að ég væri hinum megin í pólitíkinni vegna tilhneigingar minnar til að rétta hlut þeirra sem hallað var á í umræðunni hverju sinni. En staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn bolaði mér úr starfi, það er nú ekki flóknara en það. Það eru margir Sjálfstæðismenn í minni fjölskyldu og ég á marga vini sem eru góðir Sjálfstæðismenn. Þegar ég var um tíma borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins kynntist ég mjög góðum Sjálfstæðismönnum í borgarstjórn. Það sem fór með þennan flokk, sem áður var víðsýnn og opinn, voru alræðisöfl er tóku völdin í kringum 1990. Afleiðingarnar eru þær, að í dag er þetta um fjórðungsflokkur í þingi en var áður í um 40% fylgi og gat valið sér samstarfsflokka í ríkisstjórn. Og Sjálfstæðisflokkurinn á aldrei aftur eftir að ná meirihluta í borginni.“ Sigurður telur að hörð stefna flokkadrátta, stjórnsemi og undirróðurs hafi grafið undan flokknum og valdið því að hann hafi misst mikið fylgi.

„Ég sagði skilið við VG út af þessari stjórnarþátttöku og framgöngu ríkisstjórnarinnar,“ segir Sigurður en hann var áður félagi í flokknum. „Ég miða það fyrst og fremst út frá mínum forsendum sem öryrki og núna löggilts gamalmennis, en ég er 68 ára. Með þessu stjórnarsamstarfi og þeim fjárhagsáætlunum sem boðaðar hafa verið til fimm ára er ljóst að Vinstri græn ætla ekki að rétta hlut öryrkja og aldraðra. Við höfum verið mjög sárt leikin allt frá 2009 þegar samstjórn VG og Samfylkingarinnar rýrði kjör okkar. Þá hugsaði maður með sér að það væri skiljanlegt, því hér var allt að fara til fjandans og landið að fara fram af hengifluginu, þannig að kannski var skerðing þá eðlileg. En á þeim árum sem síðan eru liðin hafa allir hópar fengið leiðréttingu nema öryrkjar og ellilífeyrisþegar.

Það er síðan sérkennilegt að hér á landi geta stjórnmálamenn haldið fram alls konar bulli og ósannindum án þess að fjölmiðlar gangi á þá og láti þá éta ofan í sig vitleysuna. Til dæmis þegar Bjarni Benediktsson heldur því fram að öryrkjar og ellilífeyrisþegar hafi fengið meiri leiðréttingu en allir aðrir. Eða þegar Katrín Jakobsdóttir segir að 9 milljarðar hafi á tíma þessarar ríkisstjórnar runnið til öryrkja. Þetta eru bara ósannindi og þetta hefur verið hrakið. Katrín hélt áður margar þingræður þar sem hún lýsti því hvernig kjör öryrkja hefðu verið skert með skerðingarákvæðum. Svo þegar hún er komin í ríkisstjórn, þar sem hún er meira að segja forsætisráðherra, þá gerir hún ekkert í þessu. Þetta finnst mér ófyrirgefanlegt og gera að verkum að ég vil ekkert af þessum flokki vita meira.“

Sigurður segist helst halla sér að Pírötum um þessar mundir og var í framboði fyrir flokkinn í Mosfellsbæ en sá listi náði raunar ekki árangri í kosningunum. Sigurður ber Samfylkingunni ekki jafn illa söguna og VG en er þó ekki ýkja hrifinn af flokknum: „Á þingi skortir Samfylkinguna fólk sem hefur vit á hagfræði og peningamálum. Mér finnst forystan frekar lin. Logi Einarsson er ekki slæmur en hann er heldur ekki skínandi glæsilegur leiðtogi. Oddný Harðardóttir var síðan jafnvel daufari.“

Býr í Mosfellsbæ. Kemst þolanlega af þrátt fyrir lágar bætur.

Margir öryrkjar hljóta að svelta

Sigurður segir öryrkja og ellilífeyrisþega vera skattpínda umfram aðra hópa: „Það fólk hvers hag Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ber fyrir brjósti, hans stóri frændgarður, það er í hópi fólks sem á kannski eignir frá 100 upp í 3.000 milljónir. Svona fólk lifir á fjármagnstekjum og borgar af þeim 22–30% skatt. Þegar fólk á svona mikið þá skipta skattleysismörkin hlutfallslega mjög litlu máli. Hjá fólki sem hefur sínar tekjur úr lífeyrissjóði þá er staðan hins vegar sú að það sér ekki fimmeyring af fyrstu 100.000 krónunum sem það fær greiddar úr sjóðnum. Skattbyrðin af því sem þú vinnur þér inn sem öryrki er 74% af öllu umfram 25.000 krónur. Með tekjuskerðingu eru greiðslur úr almannatryggingum orðnar hluti af skattkerfinu en skerðing árið 2009 keyrði um þverbak. Skattbyrði öryrkja almennt er á bilinu 37–74% en skattbyrði hinna ríku skjólstæðinga Bjarna er niður í 22%. Að VG geti sætt sig við þetta er mér algjörlega óskiljanlegt.“

Sigurður segir að þrátt fyrir lágar bætur komist hann og Steinunn, eiginkona hans, þolanlega af. „Hún hefur ekki miklar tekjur af textílhönnuninni er hún er mjög dugleg við alls konar heimilisiðnað, býr til dæmis til sultur. Við borðum mjög ódýrt og svo erum við með reykinguna sem er búbót. Ég lifi í raun á því sem ég var búinn að búa mér í haginn áður. Ég var ekki orðinn öryrki þegar við byrjuðum að byggja hér. Við byggðum annað hús í nágrenninu og sumarbústað í Þingvallasveit. Þetta seldum við og fluttum hingað. Ég hef alltaf verið handlaginn og gat gert ýmislegt sjálfur í þessu húsi, sem ábyggilega sparaði okkur milljónir. Við erum með lágar afborganir af lánum. Við þetta bætist að ég hef verið að selja fágætar bækur úr safni mínu sem ég hef fengið nokkra fjármuni fyrir. Þegar þetta allt leggst saman þá svona rétt sleppur þetta hjá okkur. En við höfum orðið að neita okkur um munað á borð við leikhúsferðir og tónleika, sem við nutum mjög áður fyrr.“

Hvarflaði að þér þegar þú varst ungur maður dagskrárstjóri Rásar 2 að þú hefðir ekki efni á að fara á tónleika eða í leikhús þegar þú yrðir 68 ára?

„Nei, það hvarflaði aldrei að mér,“ segir Sigurður og bendir á að margir öryrkjar hljóti að svelta þegar honum rétt tekst að komast af með mikilli útsjónarsemi. „Þeir sem hafa þungan húsnæðiskostnað hljóta að gera það.“

Ævintýrið á Útvarpi Sögu og málaferlin við Arnþrúði Karlsdóttur

Á meðan viðskilnaður Sigurðar við Rás 2 á sínum tíma hefur ekki verið áberandi í fjölmiðlaumræðu þekkja margir til deilumála hans og Arnþrúðar Karlsdóttur, núverandi eiganda Útvarps Sögu. Arnþrúður og Sigurður voru á meðal fjórmenninga sem stofnuðu stöðina á sínum tíma og störfuðu þar, en hinir voru Ingvi Hrafn Jónsson og Hallgrímur Þorsteinsson. „Eins og allir litlir fjölmiðlar lentum við í rekstrarerfiðleikum því við náðum ekki þeim auglýsingatekjum sem við þurftum. Þá var rætt um hvort við gætum selt stöðina. Arnþrúður talaði við Jóhannes í Bónus og fékk hann í lið með sér. Hann lagði henni til fé og hún ákvað að kaupa okkur út. Hún kaupir Ingva Hrafn út úr félaginu. Síðan stóð til að borga okkur Hallgrím út en það dróst. Þegar við höfðum ekki fengið kaup í svolítinn tíma gengum við út og leituðum til lögfræðinga. Ég gerði við hana sátt og fékk einhverja slummu af peningum en þeir fóru allir í lögfræðinginn svo ég fékk ekkert út úr þessu.“

Nokkrum árum síðar réð Arnþrúður hann til starfa á Útvarp Sögu. „Þetta voru ekki há laun en ég fékk frí á sumrin til að vinna sem leiðsögumaður og þar hafði ég mun hærri tekjur. Þetta gekk ágætlega en svo gerist það eitt haustið þegar ég kem úr sumarleyfinu og ætla að fara að byrja aftur, að þá svarar hún ekki endurteknum skilaboðum frá mér. Og þegar ég loksins fæ skilaboð frá henni þá er það uppsögn með sms: „Það er ekki gert ráð fyrir þér í vetrardagskrá Siggi minn.“ Svona var það nú orðað. En ég var starfsmaður þarna og í stéttarfélagi og það var ekki hægt að segja mér upp nema með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Arnþrúður var að lokum dæmd til að greiða mér uppsagnarfrestinn.

Í millitíðinni notaði hún útvarpsstöðina til að ausa yfir mig svívirðingum og illmælgi. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þar hefði ég unnið meiðyrðamál, en ég er blaðamaður og fjölmiðlamaður og mér er illa við þetta meiðyrðamálakjaftæði sem hefur verið í gangi í landinu, það getur haft hamlandi áhrif á málfrelsi. Hins vegar skil ég ekki hvers vegna Fjölmiðlanefnd greip ekki í taumana því þarna var eigandi útvarpsstöðvar að nota miðilinn til að ausa svívirðingum yfir mann sem hún átti í deilu við út af launamálum. Aðstöðumunurinn var himinhrópandi. Ég skil ekki til hvers Fjölmiðlanefnd starfar ef ekki til að grípa inn í svona mál enda er hún bara til óþurftar og var stofnuð til að hafa pólitískan hemil á fjölmiðlum.“

Sigurður segist aldrei hlusta á Útvarp Sögu í dag og geti ekkert sagt um gæði stöðvarinnar. Hins vegar hafi verið mjög gaman að vinna þar á sínum tíma og samstarfsfélagarnir verið ágætir. „Arnþrúður var líka ágæt þegar hún var í lagi – en stundum var hún bara ekki í lagi.“ Sigurður vill ekki lýsa Arnþrúði nánar en þetta.

Þröstur Helgason hefur ekki hugmynd um hvernig á að vinna í útvarpi

Sigurður unir sér meðal annar við hlusta á vandaða tónlist en fylgist líka töluvert með sínum gamla miðli, útvarpsrásum Ríkisútvarpsins. Honum þykir þeim þó hafa hnignað. Við tengjum þetta við umræðu um íslenskt mál en Sigurður sá lengi um þáttinn Daglegt mál í útvarpinu. „Um tveggja og hálfs árs skeið, frá 1984, sá ég um þennan þátt, flutti alls 270 þætti um daglegt mál. Ég hef vissulega nokkrar áhyggjur af tungumálinu en fólk á borð við Eirík Rögnvaldsson, prófessor ermerítus, er að vinna gott starf, ekki síst með því að hvetja stjórnvöld til að leggja fé í máltækni, það er að þýða tölvumálið yfir á íslensku. Það er gífurlega mikilvægt.

En það er fleira sem þarf að huga að og meðal þess er málfar í útvarpi sem mér finnst hafa hnignað, líka á Rás 1 og 2. Það er kannski ekki von á góðu miðað við afstöðu núverandi málfarsráðunautar stofnunarinnar, Önnu Sigríðar Þráinsdóttur, sem sagði í þætti nýlega að málverndarmaður væri sá sem réðist af illgirni gegn þeim sem töluðu ekki eins og hann. Þetta þykir mér undarlegt. Það hafa allir alvöru fjölmiðlar í heiminum reglur og handbók um hvernig talað skuli eða skrifað í þeirra miðli. Ég veit ekki til að slík bók sé til á RÚV. Árni Böðvarsson, sem var málfarsráðunautur stofnunarinnar þegar ég starfaði þar, kunni þetta vel og gerði skýran greinarmun á því málsniði sem átti að vera á milli rásanna tveggja, þar sem Rás 1 er mun formlegri. Í dag virðist mér þessi munur hafa þurrkast út. Núverandi dagskrárstjóri Rásar 1, Þröstur Helgason, virðist ekki hafa hugmynd um hvernig á að vinna í útvarpi né virðist hann hafa minnsta áhuga á að vita það. Mér þykir póstmódernískt fúsk einkenna Rás 1 og popptónlist er farin að verða þar mjög áberandi. Ég hef ekkert á móti popptónlist enda stjórnaði ég popprás einu sinni, það er að segja að Rás 2 samanstóð af popptónlist, fréttum og þjóðfélagsumræðu. Ég hef alltaf talið að alvarlegri tónlist ætti heima á Rás 1 en svo virðist ekki vera lengur. Ég hlusta töluvert á morgunútvarpið á Rás 2, sem er ágætt, en síðdegisútvarpið er stórundarlegt og þar virðast aldrei vera nein fréttamál til umræðu lengur.“

Trúaður en utan allra trúfélaga

Sigurður er ekki bitur og unir hag sínum nokkuð vel. Hann talar hins vegar tæpitungulaust og sér enga ástæðu til að draga úr. Þær ávirðingar sem hann hefur látið falla um menn, flokka og stofnanir í þessu viðtali hefur hann nánast flutt með bros á vör. Hann segist hafa margt gott að lifa fyrir. „Ég á og hef átt margar margar yndisstundir með fjölskyldu og vinum. Synir mínir tveir hafa til dæmis gert mér kleift að fara til útlanda með því að borga undir mig ferðir.“

Aðspurður segir hann hins vegar að heilsan sé ekki góð þó að sjónin hafi batnað nokkuð aftur. „Ég fékk lömunarveiki í æsku, í síðasta lömunarveikifaraldrinum sem gekk yfir árið 1955. Þetta hefur haft í för með sér slitgigt sem ágerist mjög með aldrinum. En mér þykir ekki gaman að tala um sjúkdóma. Hins vegar skal ég alveg viðurkenna að minn skammtur af óþverra í þeim efnum hefur verið nokkuð stór.“

Sigurður kveðst aðspurður vera nokkuð trúaður en er þó utan allra trúfélaga, þar á meðal Þjóðkirkjunnar. „Mér var kennt að fara með kvöldbænir og signa mig á morgnana í æsku,“ segir hann. Hann fylgir þessu nú ekki lengur en viðurkennir að hann biðji stundum. Hann leggur hins vegar mikið upp úr trúfrelsi og meðal annars í því skyni hefur hann tekið að sér að vera athafnastjóri hjá félaginu Siðmennt sem iðkar borgaralegar athafnir sem valkost við kirkjulegar. Aðspurður segist Sigurður ekki þekkja önnur dæmi um trúaðan mann sem komi að starfi Siðmenntar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segir fréttir af fylgistapi Flokks fólksins stórlega ýktar því Maskína og fjölmiðlar gleymi mikilvægri staðreynd

Segir fréttir af fylgistapi Flokks fólksins stórlega ýktar því Maskína og fjölmiðlar gleymi mikilvægri staðreynd
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Katrín, Reimar og Salvör endurvekja félag frá sjötta áratugnum

Katrín, Reimar og Salvör endurvekja félag frá sjötta áratugnum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Íbúar í áfalli og vilja fella ferlíkið – „Valdníðslan“ sérlega óprúttin í ljósi þess hverjir búa við Árskóga

Íbúar í áfalli og vilja fella ferlíkið – „Valdníðslan“ sérlega óprúttin í ljósi þess hverjir búa við Árskóga
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir Svandísi líta framhjá mikilvægu atriði sem átt hafi þátt í falli VG

Segir Svandísi líta framhjá mikilvægu atriði sem átt hafi þátt í falli VG