„Ég byrjaði fjórtán ára að vinna í bakaríi og vann þar í fimm ár og hérna hef ég unnið við umönnun í tvö ár. Á meðan ég bý heima þá get ég lagt til hliðar. Ég fór í skiptinám, ég safnaði fyrir því og ég safnaði líka fyrir heimsreisu, ég ferðaðist ein í fjóra og hálfan mánuð um Evrópu og Norður- og Suður-Afríku. Ég held að foreldrar mínir hafi ekki sofið vel á meðan á þessu ferðalagi mínu stóð. Foreldrar mínir vilja gjarnan hafa okkur heima, mig og bræður mína, okkur líður vel saman þegar allir eru undir sama þaki, við erum mjög náin fjölskylda.“
Svona hefst frásögn Maríu Egilsdóttur sem starfar við umönnum á hjúkrunarheimilinu í Sóltúni. Hún er ein af fólkinu í eflingu og deilir sögu sinni á Facebook síðu átaksins „Fólkið í Eflingu“. Þar má einnig finna fjölmargar aðrar sögur fólksins í stéttafélaginu, fólks sem vinnur margvísleg störf í íslensku samfélagi en oft á tíðum fyrir lág laun.
Það er engin ástæða til að breyta þessari frásögn og ætti enginn að láta hana fram hjá sér fara. Frásögn Maríu er svohljóðandi:
„Ég er fædd og uppalin í Laugardalnum og hef alltaf búið á sama stað. Ég tók vaktir hérna á hjúkrunarheimilinu í Sóltúni með skólanum í Kvennó og eftir að ég kláraði menntaskólann réð ég mig í fullt starf. Amma býr hérna á annarri hæð á hjúkrunarheimilinu og ég vildi vera nálægt henni. Við amma höfum alltaf verið vinkonur en erum enn þá nánari núna en ég er nær og meira með henni núna eftir að ég byrjaði að vinna hérna.
Í tvö ár kom ég hingað í heimsókn til ömmu áður en ég sótti um að vinna hérna við umönnun. Ég var dálítið óörugg fyrst og þrátt fyrir að vera mikil félagsvera hafði ég aldrei unnið með fólki. Það tók mig tíma að vinna upp sjálfstraust í starfinu og hann var skemmtilegur dagurinn þegar ég hafði lært inn á rútínuna.
Mér datt aldrei í hug að ég myndi fara að vinna á elliheimili, ég hélt að það væri bara að skeina fólki. En umönnun er að bera ábyrgð á fólki og ég tek því frekar alvarlega. Eina erfiða við þetta er að það kemur að því að kveðja og þannig er bara lífið. Hérna er verið að hvetja mig til þess að læra hjúkrun en hingað kom eitt sinn hjúkrunarnemi í starfsnám og ég sé mig alveg falla inn þann hóp.
Ég dýrka vinnuna mína og ef ég er í fríi þá veit ég ekki hvað ég á af mér að gera og kem hingað í heimsókn. Það er alltaf eitthvað um að vera hérna og þegar íbúarnir eru glaðir þá er ég glöð. Fólkið segir alltaf: „Ég vildi að ég gæti gert eitthvað meira en bara segja takk“ en það er einmitt svo gott, þetta þakklæti. Í bakaríinu þar sem ég afgreiddi í fimm ár upplifði ég ekkert þakklæti.
Ég hef lært hérna að það er ekkert sjálfsagt að allir fái miklar heimsóknir. Stundum kemur upp afbrýðisemi hjá fólki sem fær fáar heimsóknir út í hin sem fá fleiri heimsóknir og það er leiðinlegt að sjá það.
Amma verður 89 ára á morgun, hún kom hingað 85 ára. Við uppgötvuðum að hún væri með Alzheimer þegar hún hringdi heim til mömmu sjö á morgnanna til þess að spyrja eftir okkur og hvort við værum ekki á leiðinni til hennar í mat en þá fórum við að átta okkur á því að ekki væri allt með feldu. Við, ég og bróðir minn fórum þá að gista hjá henni á nóttunni til skiptist og í framhaldinu fékk hún pláss hérna í Sóltúni.
Amma bjó lengi ein, hún missti afa þegar hún var aðeins 46 ára, hún átti að vísu fimm börn en hún eignaðist aldrei aftur maka. Stundum ímynda ég mér að hún hafi fengið sjúkdóminn út af einverunni, en Alzheimersjúkdómur er mjög algengur í dag og erfitt að segja um það hver orsökin er.
Það getur verið sárt fyrir aðstandendur þegar mamma manns man ekki lengur hver þú ert eða hvað þú heitir og fólk getur orðið pirrað og stressað út í þann veika og reynir að leiðrétta hann, en það er ekkert við þessu að gera.
Amma ljómar alltaf þegar hún sér mig og við hlustum á tónlist og spilum. Ég fer yfir afmælisdagana með henni og stundum man hún allt og stundum ekkert. Og ef hún er gleymin þá fer hún að hlæja. Mér finnst dýrmætt þegar hún hlær og brosir. Þetta er sjúkdómur og hún getur ekki gert neitt við því. Best að leyfa henni að gleyma í friði.
Amma á tólf systkini en hún var sú eina sem fékk Alzheimer, þannig að þetta var dáldið sjokk fyrir fjölskylduna og mamma er stressuð yfir þessu. Ég nenni ekki að pæla því hvort ég fái Alzheimer, ég gæti líka fengið brjóstakrabbamein sem er algengt í föðurfjölskyldunni minni, ef það verður raunin að ég fái Alzheimer þá verður fjölskylda mín eða einhver annar að díla við það.“