Boeing verksmiðjunum hefur verið gert af bandarískum loftferðayfirvöldum að rannsaka sprungumyndanir í nokkrum 737 NG farþegaþotum félagsins sem fundust við endurbætur á þotu sem var mjög mikið notuð.
Rannsóknin nær ekki til MAX vélanna sem enn eru í flugbanni, en öllum rekstraraðilum NG vélanna hefur verið gert viðvart.
Ekki er vitað um fjölda véla né hvar sprungurnar fundust, en Morgunblaðið greinir frá þessu í dag, sem og nefnir að samkvæmt heimasíðu Boeing sé Icelandair meðal kaupenda þessarar gerðar af þotum.
Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, sagði hinsvegar við Eyjuna að engar slíkar þotur væru í notkun hjá þeim:
„Við keyptum og seldum nokkrar svona vélar fyrir mörgum árum, en höfum ekki rekið þær. En flugheimurinn fer gegnum mörg svona mál á ári þar sem eitthvað nýtt finnst við viðhald á vélum og gripið er til fyrirbyggjandi aðgerða í framhaldi,“
sagði Jens.