Veitingastaðurinn Bragginn Bar og Bistro hefur skellt í lás. Þetta kemur fram í frétt Hringbrautar. Háskólinn í Reykjavík verst svara um málið.
Háskólinn í Reykjavík leigir braggann af Reykjavík, líkt og DV hefur áður greint frá. HR framleigði svo húsnæði til veitingahússins Braggans Bistró sem opnaði í júní á síðasta ári.
Sjá einnig: Engin leiga verið greidd af Bragganum
Fyrirsvarsmaður Braggans Bistró greindi frá því október að óvægin umfjöllun um frammúrkeyrslu Reykjavíkurborgar í Braggamálinu hefði ekki haft áhrif á rekstur veitingahússins, þvert á móti væri það kostur við umræðuna að Bragginn væri nú á allra vitorði.
Í kvöld greindi Hringbraut þó frá því að Bragginn Bistró hafi hætt rekstri. Lokað hefur verið fyrir síma staðarins, heimasíðu og facebook-síðu. Hringbraut hefur eftir Facebook-pistli Daða Agnarssonar, fyrirsvarsmanni Braggans Bistró, að borgarfulltrúar Reykjavíkur hafi komið óorði á Braggann.
„Óvægin umræða um vinnustaðinn þeirra hefur gert það að verkum að þau þurfa að fara að afsaka staðinn, sinn eigin vinnustað. Þetta er fólk sem þarf að svara fyrir mistök annara, svara fyrir óábyrga umræðu stjórnmálamanna.“
Samkvæmt Daða störfuðu 18 manns á veitingastaðnum.
Ingunn Svala Leifsdóttir, framkvæmdastjóri hjá HR, sagði í samtali við blaðamann Hringbrautar að HR hefði þegar samið við nýjan rekstraraðila en varðist þó frekari spurninga um hvers vegna Bragginn bistró hafi hætt rekstri. Eins neitaði forstöðumaður markaðs – og samskiptasviðs HR að svara spurningum.
Braggamálið svonefnda var eitt af stærsta fréttamálinu á síðasta ári. Kostnaður við að gera upp Bragga í Nauthólsvík hljóp hundruðum milljóna fram úr áætlunum og hefur meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur sætt harðri gagnrýni vegna málsins. Samkvæmt innri endurskoðun Reykjavíkurborgar var kostnaðareftirliti ábótavant og bæði reglur, lög og verkferlar virt að vettungi.
Sjá einnig: Braggaskýrslan birt
Braggablús borgarinnar: Náðhúsið kostaði 46 milljónir
Það helsta sem þú þarft að vita um braggamálið – Spurt og svarað