fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Eyjan

Ísland fellur niður listann í stafrænni samkeppnishæfni – „Það eru vonbrigði“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 27. september 2019 09:32

Ásta S. Fjeldsted Mynd Twitter

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ísland fellur um sex sæti í úttekt IMD viðskiptaháskólans á stafrænni samkeppnishæfni í ár og fer því úr 21. sæti niður í 27. sæti af 63 samkvæmt tilkynningu frá Viðskiptaráði. Um er að ræða sambærilega úttekt og IMD gerir á samkeppnishæfni ríkja í víðu samhengi, þar sem Ísland mælist í 20. sæti.

Niðurstaðan er sögð talsvert bakslag eftir hækkun síðustu ár og er Ísland nú komið í sama sæti og árið 2014. Lækkunin er sögð skýrast helst af lakara mati á hversu viðbúnir Íslendingar eru að takast á við breytingarnar framundan.

„Á tímum þegar tæknibreytingar eru hraðar og geta ríkja til að takast á við þær mun ráða árangri á ýmsum sviðum samfélagsins eru niðurstöðurnar umfram allt vonbrigði. Ísland þarf og á að gera betur til að tryggja stafræna samkeppnishæfni,“ segir í tilkynningunni.

Vonbrigði

 Það eru vonbrigði að Ísland falli í stafrænni samkeppnishæfni. Undanfarin ár hefur Viðskiptaráð lagt mikið upp úr því að fyrirtæki og hið opinbera taki á móti og nýti þau tækifæri sem felast í tæknibreytingum svo ljóst er að við þurfum að gera mun betur. Til að snúa við þróuninni og sækja fram þurfum við annars vegar að hlúa að styrkleikum Íslands og hins vegar bæta veikleikana. Í því samhengi höfum við tekið saman lista yfir nokkra af helstu styrkleikum og veikleikum Íslands. Vegna þess hve fámenn við erum munum við seint skora hátt á mælikvörðum eins og hversu hátt hlutfall vélmenna á heimsvísu er á Íslandi. Aftur á móti getum við gert betur í að laða til landsins alþjóðlega reynslu, auka flæði erlendra og íslenskra stúdenta yfir landamærin, nýta betur rannsóknir til að skapa viðskiptatækifæri og bæta úr stafrænni þjónustu hins opinbera.“

segir Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Stafrænni samkeppnishæfni er skipt í þrjá meginþætti:

  • Þekking: Samanstendur af þremur undirþáttum sem eru hæfni íbúa, menntun og þjálfun, og áhersla á vísindastarf. Ísland er í 29. sæti í þessum meginþætti og stendur hlutfallslega best í menntun og þjálfun (18. sæti) en talsvert verr í hinum þáttunum. Fámenni og fáir erlendir sérfræðingar hafa hér mikil áhrif en Viðskiptaráð hefur áður bent á að nauðsynlegt sé að laða til landsins erlenda þekkingu með erlendri fjárfestingu og erlendum sérfræðingum.
  • Tækni: Er samsett úr regluverki, fjármögnun og skipulagi tæknimála. Ísland er hér í 20. sæti og fellur á milli ára. Regluverk og skipulag tæknimála togar okkur upp á við en fjármögnun er einungis í 39. sæti sem skýrist meðal annars af takmörkuðu aðgengi að áhættufjármagni. Þrátt fyrir að fjármögnunarumhverfið hafi stigið skref fram á við á síðustu árum hefur Viðskiptaráð talað fyrir því að mikil sóknarfæri liggi í bættri samkeppnishæfni á því sviði og er þessi niðurstaða í takt við það.
  • Framtíðar viðbúnaður (e. future readiness): Mælir hversu vel fólk, fyrirtæki og hið opinbera tekur á móti tæknibreytingum og ræðst af viðhorfum, lipurð atvinnulífsins (e. Business agility) og samþættingu upplýsingtækni (e. IT integration). Ísland er í 26. sæti í þessum meginþætti og skýrir hann að mestu fall Íslands í samkeppnishæfni. Í ofangreindum undirþáttum situr Ísland í 24-28. sæti.

Bandaríkin sitja sem fyrr í efsta sæti en þar á eftir koma Singapúr og Svíþjóð. Mjög litlar breytingar hafa orðið á efstu sætum fyrir utan að Holland hefur farið upp í 6. sæti en Noregur færst niður í 9. sæti. Öll hin Norðurlöndin eru því á topp tíu og langt fyrir ofan Ísland.

„Þetta er áhyggjuefni því Ísland vill almennt bera sig saman við hin Norðurlöndin og niðurstöðurnar gefa til kynna að við stöndum ekki jafn vel að vígi og þau þegar kemur að yfirstandandi tæknibreytingum,“

segir í tilkynningu.

Um úttektina

Úttekt IMD á samkeppnishæfni ríkja er ein sú umfangsmesta í heimi og hefur verið framkvæmd í meira en 30 ár. Viðskiptaráð Íslands hefur verið samstarfsaðili IMD hér á landi síðustu ár. Árið 2017 hóf IMD einnig sérstaka birtingu á stafrænni samkeppnishæfni í 63 ríkjum og er hún nú birt í þriðja sinn. Sú úttekt samanstendur af 51 undirþætti. Af þeim byggja 31 á haggögnum og 20 á alþjóðlegri stjórnendakönnun sem um 6.200 stjórnendur fyrirtækja og annarra samtaka taka þátt í.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á