Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík, birti í dag mynd af rykföllnum bíl í almennu bílastæðahúsi í Bryggjuhverfi. Íbúar segja bílana hafa verið þar í á annað ár, en svörin frá Reykjavíkurborg tilgreina aðeins „nokkra mánuði“.
Sjá einnig: Yfirgefnir og rykfallnir bílar Reykjavíkurborgar valda íbúum óþægindum
Vigdís sagði við Eyjuna að þetta væri dæmi um óstjórnina sem ríkti í rekstri Reykjavíkurborgar, en tveir bílar eru á staðnum og virðast hafa verið óhreyfðir í langan tíma:
„Ég veit ekki hvað er í gangi hjá Reykjavíkurborg, þar sem það vantar pening út um allt og hvers vegna þessir bílar voru í fyrsta lagi keyptir þar sem notagildið er ekki meira en þetta,“ sagði Vigdís sem hyggst spyrja út í málið á fundi borgarráðs á fimmtudag.
Bjarni Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar, svarar fyrirspurn Eyjunnar og segir það staðfest að þrír séu komnir í leigu hjá umhverfis- og skipulagssviði. Einnig kveðst hann hafa þær í upplýsingar að bílarnir hafi aðeins verið þarna í nokkra mánuði.
„Fjórir þeirra ganga fyrir metani en einn fyrir dísel. Borgin á nokkurn fjölda bíla sem hún leigir sviðum borgarinnar. Þegar notkun sviðanna á bílunum dróst saman voru nokkrir þeirra seldir í gegnum bílasölur, en metið sem svo að geyma nýjustu bílana um stund til að nota innan kerfis,” segir Bjarni.