Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og varaforseti ASÍ, vekur athygli á vægi millilandaflugs þegar kemur að losun koltvísýrings (CO2) en losun flugvéla er meira en álvera, fiskiskipaflotans og bílaflotans til samans.
Vilhjálmur telur mikilvægt að umhverfissinnar átti sig á þessum hlutföllum, þar sem ekki sé eins mikil „stemmning“ hjá þeim að mótmæla flugsamgöngum:
„Tel mikilvægt að allir umhverfissinnar átti sig á þessari mynd, en á henni sést hvað millilandaflug til Íslands losar gríðarlegt magn árlega af C02. Takið eftir að allt millilandaflug til Íslands mengar 7,2 milljónum tonna meira en allur orkufrekur iðnaður á Íslandi. Tel einnig mikilvægt að andstæðingar orkufreks iðnaðar átti sig á þessum staðreyndum, en ég geri mér grein fyrir því að það er minni stemming hjá hörðustu umhverfissinnum að vera á móti flugsamgöngum, en það er í tísku og þykir flott að vera á móti orkufrekum iðnaði. Rétt að upplýsa að útflutningstekjur frá orkufrekum iðnaði nema um 230 milljörðum eða um 34% af öllum útflutningstekjum þjóðarinnar.“
Í athugasemdakerfinu segir Vilhjálmur að hann sé að benda á hræsnina þegar kemur að umhverfismálum hér á landi:
„Ég er bara að benda á hræsnina þegar kemur að umhverfismálum.“
Hér að neðan má sjá myndina. Þar sést að losun flugfélaga er langmest.
Vilhjálmur bendir sjálfur á að hann sé að vissu leyti talsmaður álveranna, eftir að hafa fengið gagnrýni fyrir skrif sín, þar sem hann hafi barist fyrir lægra orkuverði til álveranna í fyrri færslum sínum:
„Mitt hlutverk er að verja atvinnuöryggi og lífsviðurværi minna félagsmanna en rétt er að geta þess að um 60% minna félagsmanna koma frá fyrirtækjunum á Grundartanga.“