Ferðaskrifstofan Thomas Cook varð til þegar ferðalög urðu algengari en áður með tilkomu gufuskipa og járnbrauta. Þetta var á nýlendutímanum, heimurinn var leikvöllur breska heimsveldisins. Það er áhugavert að skoða gamlar auglýsingar frá Thomas Cook.
Mannfjöldin hefur varla verið að þvælast fyrir farþegum í þessum ferðum. Þeir hafa væntanlega verið klæddir í falleg föt, hvít eða ljós, með hatta og ferðakoffort sem voru borin fyrir þá af burðarmönnum.
Thomas Cook átti síðar mikinn þátt í að skapa hjarðferðamennskunna til sólarlanda. Byrjaði á Ítalíu – síðar kom Spánn. Hvítu fötin hurfu, viku fyrir flísi, fótboltatreyjum, ferðatöskum á hjólum.
En að endingu var það internetið sem drap Thomas Cook. Það er ekkert vit í því að vera með ferðaskrifstofur í borgum og bæjum þegar fólk notar Booking, Expedia og Airbnb til að bóka ferðalög. Thomas Cook safnaði skuldum og fór loks á hausinn.
Svona breytast lífshættir okkar og borgarmyndin. Einu sinni voru ferðaskrifstofur áberandi í bæjum. Ég man eftir allnokkrum í Miðborginni í Reykjavík, með fjölda starfsmanna. Hápunkturinn í samkvæmislífi margra voru skemmtanir sem ferðaskrifstofurnar héldu, grísaveislur og útsýnarkvöld. Nú hafa þær annað hvort lagt upp laupana eða flutt út á jaðar, þá í smækkaðri mynd. Maður les að með falli Thomas Cook loki 560 útibú í Bretlandi.
Það þýðir ekki að við höfum hætt að ferðast, fólk stundar ferðalög af meira kappi en nokkru sinni fyrr. Það er til vitnis um hvílíkt velmegunarskeð við lifum í raun. En við sitjum í einsemd við tölvuna og skipuleggjum ferðalögin.