Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, fjallar um þá Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins og Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Tilefnið er grein Sigmundar á laugardag í Morgunblaðinu, og ræða hans um stefnuræðu forsætisráðherra, hvar hann sagði Alþjóða-veðurfræðistofnunina (WMO) vara við ofstæki í loftlagsmálum og að það væri rangt hjá Katrínu Jakobsdóttur að fellibyljir væru tíðari og öflugri en áður vegna hamfarahlýnunar:
„…kvartar hann sáran undan loftslagsvísindunum. Hann sér samsæri í hverju horni gegn þeim sem „vilja leysa málin með hliðsjón af vísindum og almennri skynsemi“, og sæti fyrir það fordæmingu, svo sem fyrir að „efast um ofsann“. Þessir efasemdarmenn séu útilokaðir og „fordæmdir sem villutrúarmenn“. Hann er augsýnilega fórnarlamb loftslagsvísindanna,“
segir Árni og hefst við að hrekja málflutning Sigmundar:
„Það er með ólíkindum að WMO hafi gefið út slíka viðvörun þvert á yfirlýsta stefnu Sameinuðu þjóðanna, enda reyndust heimildir ræðumanns um þetta einkar ótraustar. Furðu sætir raunar að alþingismaður og formaður stjórnmálaflokks gíni við slíku og flytji í ræðu á Alþingi. Þá liggur beint við að skilja ummæli hans um fellibylji svo að þau séu einnig úr ranni WMO, sem er auðvitað fráleitt.
Í yfirlýsingu sem framkvæmdastjóri WMO, Petteri Taalas, sendi frá sér daginn eftir kannast hann ekki við að hafa látið þau orð falla sem Sigmundur Davíð hefur eftir honum. Í yfirlýsingunni leggur framkvæmdastjóri WMO áherslu á þetta: „Til þess að hindra að hitastig í heiminum aukist um minna en 2 gráður á Celsius miðað við fyrir iðnbyltingu þarf að þrefalda aðgerðir [til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda]. Og til að koma í veg fyrir hlýnun umfram 1,5 gráður þarf að fimmfalda þær.“
Í viðtali við fréttastofu RÚV á föstudaginn bætti framkvæmdastjórinn svo um betur og fullyrti að ummæli hans í finnskum fjölmiðlum hefðu „vísvitandi verið rangtúlkuð af þeim sem efast um að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum“.
Árni tekur einnig Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins fyrir, en Davíð, líkt og oft áður, tók upp hanskann fyrir Sigmund í sínum skrifum:
„Annað fórnarlamb vísindanna er ritstjóri Morgunblaðsins sem í leiðara sl. föstudag ber sig illa, líkt og oft áður, yfir því að þeim sem efast um taktinn í loftslagsbreytingunum hafi „í vaxandi mæli [þótt] öruggara að hafa lágt um sig og geyma [gagnrýnar spurningar] hjá sér þar til ofsafengin umræðan hefði náð hámarki og efasemdir um háværustu kenningarnar þættu ekki til marks um mannvonsku og glæpi í senn. Kæti ritstjórans varð því næsta takmarkalaus þegar Sigmundur Davíð afhjúpaði að framkvæmdastjóri Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar hefði lýst áhyggjum sínum yfir ofstæki þeirra sem lengst vildu ganga til að hægja á loftslagsbreytingum. „Er mönnum nóg boðið?“ spurði ritstjórinn fullur vandlætingar í fyrirsögn og vænti tímamóta í umræðunni. Þau tímamót eru ekki á næsta leiti, því öfugt við það sem ritstjórinn heldur fram er framkvæmdastjóri WMO ekki einn þeirra sem hann reyndi að verja í leiðara sínum á föstudaginn: Efasemdarmenn sem að ósekju hefðu verið uppnefndir „afneitunarmenn,“ fyrir það eitt að „leyfa sér að spyrja um raunverulegar röksemdir [og sem] væru með því atferli að leggja sitt af mörkum til að jörðin tortímdist“.“
segir Árni.
Árni nefnir einnig að ekkert fái því breytt, hvorki raunveruleg rök né falsfréttir, að í skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) árið 1995 hafi komið fram að hlýnun jarðar valdi loftslagsbreytingum og afleiðingarnar geti orðið skelfilegar.
Þetta hafi verið tekið saman í minnisblaði til þáverandi umhverfisráðherra í ríkisstjórn Íslands í janúar 1996 og því hefði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, átt að hafa vitneskju um hinar vísindalegu staðreyndir í málinu frá upphafi:
„Ritstjóri Morgunblaðsins hafði greiðan aðgang minnisblöðum ráðherra um miðbik tíunda áratugar síðustu aldar. Sá hann þá einhver raunveruleg rök sem mæltu gegn því að þær upplýsingar sem fram komu í minnisblaðinu stæðust? Telur hann að framkvæmdastjóri WMO, Petteri Taalas, hafi rangt fyrir sér um að fimmfalda verði aðgerðir alþjóðasamfélagsins til að takmarka hlýnun jarðar við 1,5°C? Telur ritstjórinn að unnt sé að beita „raunverulegum röksemdum“ gegn því að súrnun sjávar umhverfis Ísland mælist hröð og sé hættuleg lífríkinu? Ef svo er – hvar eru rannsóknarniðurstöður þeirra vísindamanna sem þessa dagana liggja lágt vegna ótta við fordæmingu?“