Vijay Bhatia, forseti Bird Group og umboðsmaður Icelandair í Nýju Delí, segist vongóður um að Icelandair muni hefja beint flug til Nýju Delí innan eins til tveggja ára. Hann segir mikinn áhuga á Íslandi á Indlandi, en skortur á beinu flugi hafi staðið í vegi fyrir að ferðamenn þaðan hafi komið hingað í miklum mæli. Sjálfur fór hann Gullna hringinn í fyrradag, ásamt fleiri samlöndum sínum, sem voru þátttakendur á viðskiptaþingi Íslands og Indlands, og bendir á að á stæðinu við Gullfoss hafi verið þrjár aðrar rútur á sama tíma, fullar af áhugasömum indverskum ferðamönnum.
Bhatia bendir hins vegar á að Icelandair eigi um þessar mundir í ákveðnum vandræðum vegna kyrrsetningar Boeing Max vélanna og það geti sett strik í reikninginn. Íslensk ferðamálayfirvöld hafi hins vegar sinnt markaðsstarfi á Indlandi mjög vel á undanförnum árum og það hafi skilað sér í auknum áhuga. Vandamálið hafi fyrst og fremst verið skortur á beinu flugi.
Það er skemmst að minnast þess að WOW air hóf beint flug til Nýju Delí fyrir tæpu ári. Það var hins vegar rétt byrjað þegar félagið fór í þrot, þannig að eiginleg reynsla á þessari flugleið er ekki fyrir hendi.
Bird Group hefur verið umboðsaðili Icelandair í um 10 ár, auk þess sem félagið sinnir mörgum öðrum flugfélögum sem fljúga til Indlands. Þá rekur félagið hótel og fleira sem tengist ferðaþjónustu í heimalandinu.