Grunnlaun borgarfulltrúa hækkuðu um 2.8 prósent í síðustu viku, í takt við launavísitölu sem er uppfærð tvisvar á ári. Eru grunnlaun borgarfulltrúa nú 763.833 krónur á mánuði, en greitt er aukalega fyrir setu í ráðum og nefndum borgarinnar og enn meira fyrir formennsku, líkt og sjá má á vefsvæði Reykjavíkurborgar.
Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, er með tæpar 2.2 milljónir á mánuði, þar af fær hann laun upp á rúmar 220 þúsund krónur fyrir að gegna stjórnarformennsku í Slökkviliðinu á höfuðborgarssvæðinu.
Næst honum kemur oddviti Viðreisnar og formaður borgarráðs, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir með rúmar 1.7 milljónir, en hún situr í stjórnum Faxaflóahafna, og Lífeyrissjóði starfsmanna Reykjavíkurborgar. Fær hún einnig greitt álag fyrir formennsku sína í borgarráði.
Þá kemur Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar,með tæpar 1.5 milljónir á mánuði.
Hér að neðan má sjá hvernig launin skiptast meðal borgarfulltrúa
Grunnlaun borgarfulltrúa: kr. 763.833.
Grunnlaun 1. varaborgarfulltrúa kr. 534.683.
Borgarfulltrúi fær greiddan starfskostnað kr. 55.164, til að mæta öllum persónulegum kostnaði vegna starfsins.
Borgarfulltrúi á rétt á 25% álagi á laun ef hann gegnir formennsku í fagráði/borgarstjórnarflokki eða ef hann situr í þremur eða fleiri fastanefndum.
Borgarfulltrúi sem situr í borgarráði á rétt á 25% álagi á laun, kjörinn varamaður á rétt á 6% álagi og formaður borgarráðs á rétt á 40% álagi.
Forseti borgarstjórnar á rétt á 25% álagi á laun.
Laun borgarfulltrúa með 6% álagi (varamaður í borgarráði) kr. 809.663.
Laun borgarfulltrúa með 25% álagi (s.s. vegna setu í þremur nefndum) kr. 954.791.
Laun borgarfulltrúa með 2*25% álagi (s.s. vegna setu í borgarráði og öðrum þremur nefndum) kr. 1.145.749.
Laun 1. varaborgarfulltrúa með 6% álagi (varamaður í borgarráði) kr. 580.513.
Laun 1. varaborgarfulltrúa með 25% álagi (s.s. vegna setu í þremur nefndum) kr. 725.641.