Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, svarar Arnóri Ragnarssyni í færslu á Facebook síðu sinni í dag. Líkt og Eyjan fjallaði um sakaði Ragnar fjármálaráðherra um falsfréttir og að segja ekki satt frá, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Arnór titlar sig sem talnaglöggan eldri borgara, en Bjarni segir að Arnór hafi misskilið framsetninguna:
„Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag segir Arnór Ragnarsson að álögur á eldri borgara muni hækka vegna skattkerfisbreytinga sem eru boðaðar nú um áramót. Nánar tiltekið að eldri borgari með 300 þ.kr. tekjuskattsstofn muni greiða 400 kr. meira í skatt á mánuði á næsta ári vegna fyrirhugaðra breytinga á sköttum.
Þetta er á misskilningi byggt sem sjálfsagt er að leiðrétta.
Hið rétta er að eldri borgari með tekjuskattsstofn upp á 300 þúsund kr. hefði í óbreyttu kerfi haldið eftir 247.546 kr. 2020 en mun halda eftir 250.244 kr. í nýju skattkerfi. Hann fær því skattalækkun upp á 2.700 kr. á mánuði frá áramótum eða rúmlega 32 þ.kr. í auknar ráðstöfunartekjur á árinu 2020.
Þetta er einungis fyrri hluti skattalækkunarinnar. Á árinu 2021 lækka skattarnir enn frekar og munar þá 7.532 kr. á mánuði eða 90.384 kr. á ári. Þá má geta þess að lífeyrisgreiðslur almannatrygginga munu að auki hækka um 3,5% árið 2020.
Nýtt tekjuskattskerfi mun auka, ekki skerða, ráðstöfunartekjur eldri borgara og hækka ráðstöfunartekjur allra tekjutíunda. Alls munu heimilin hafa 21 ma.kr. meira milli handanna á ári frá og með 2021.“
Fyrr í dag hafði efnahags- og fjármálaráðuneytið sent frá sér leiðréttingu vegna rangfærslna í fjölmiðlum:
Kynnt hefur verið skattalækkun í tveimur áföngum í stað þriggja, 1. janúar 2020 og 1. janúar 2021. Mun ábati hennar skila sér strax til allra tekjutíunda. Þegar lækkunin er að fullu komin fram munu ráðstöfunartekjur heimilanna aukast um 21 ma.kr. á ári. Fyrir einstaklinga með tekjuskattsstofn í kringum 350 þúsund krónur þýðir það 125 þúsund króna skattalækkun á ári.
Strax um áramót kemur til framkvæmda fyrri hluti skattkerfisbreytingarinnar. Skattgreiðslur fólks með tekjur við fyrstu þrepamörkin munu lækka um 42 þúsund krónur á næsta ári. Þá hefur að sjálfsögðu verið tekið tillit til lækkunar persónuafsláttar sem beitt er í samspili við upptöku nýs lægsta þreps, til að beina þunga lækkunarinnar til þeirra sem eru um eða undir meðaltekjum.
Einnig telur fjármála- og efnhagsráðuneytið rétt að benda á að hækkun persónuafsláttar í stað nýs grunnþreps hefði ekki skilað meiri ávinningi til tekjulægstu hópanna. Sú aðferð hefði þvert á móti skilað mun minni ávinningi til lágtekjuhópa og hefði auk þess skilað sömu krónutölu upp allan tekjustigann. Lækkun persónuafsláttar hefði þannig einungis í för með sér 5.800 kr. ávinning og hefði sá ávinningur farið upp allan tekjustigann. Hefði lækkun persónuafsláttar átt að skila 10þ. kr. lægri ráðstöfunartekjum hefði slík breyting kostað ríflega 31 ma.kr.
Samsköttun hjóna og sambúðarfólks
Samsköttun hjóna/sambúðarfólks sem gerir fólki kleift að samnýta persónuafslátt verður áfram heimil í skattkerfinu. Að auki er rétt að árétta að heimild til samnýtingar skattþrepa, sem innleidd var í skattkerfið 2010, verður einnig óbreytt í nýju skattkerfi. Það er því rangt sem haldið hefur verið fram að verið sé að hækka skatta um 3 ma. kr. Breytingar á skattkerfinu munu þvert á móti lækka skatta allra tekjutíunda og skila sem fyrr segir 21 ma.kr. í auknar ráðstöfunartekjur á ári til heimilianna.