„Ég get ekki séð að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins getum stutt stjórnarsamstarf sem fer fram með þessum hætti. Það er best að gera grein fyrir því strax,“
segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi samgönguráðherra í niðurlaginu í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Tilefnið er aðferðarfræði umhverfisráðherra, Guðmundar I. Guðbrandssonar, VG, varðandi friðlýsingar og verklag hans sem Jón segir að séu ekki lögum samkvæmar:
„Aðferðafræði hans stenst að mínu mati enga skoðun og hafa margir hagsmunaaðilar fullyrt að ekki sé farið að lögum í þeirri útfærslu sem hann boðar. Ég er sammála því að verklag hans samræmist ekki lögum.“
Nefnir Jón hnútinn sem Hvalárvirkjun er kominn í , þrátt fyrir að forveri Guðmundar, Svandís Svavarsdóttir, hafi í sinni ráðherratíð sett virkjunina í nýtingaflokk. Nú sé hinsvegar allt komið í baklás og Guðmundur hafi ekki getað lagt fram rammaáætlun þar sem hann telji enga frekari þörf á að virkja á Íslandi:
„Umhverfisráðherra er upptekinn af því þessa dagana að efna til friðlýsingar á grundvelli þessara laga. Aðferðafræði hans stenst að mínu mati enga skoðun og hafa margir hagsmunaaðilar fullyrt að ekki sé farið að lögum í þeirri útfærslu sem hann boðar. Ég er sammála því að verklag hans samræmist ekki lögunum. Í því sambandi má nefna að dettur einhverjum það í hug að Alþingi hafi framselt slíkt vald til eins manns, að hann geti að eigin geðþótta ákveðið friðlýsingamörk? Það er annarra að gera það og Alþingis að afgreiða samhliða rammaáætlun hverju sinni. Skýrt dæmi um hvernig aðferðafræði ráðherrans mun virka í raun er t.d. að ef engin virkjun væri í dag til staðar í Þjórsá og Alþingi hefði ákveðið að setja virkjunarkostinn Urriðafoss í verndarflokk myndi ráðherrann friða allt vatnasvæði Þjórsár frá jökli til ósa þannig að engin virkjun yrði reist við Þjórsá. Þetta er galin leið og gengur ekki upp.“