fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Eyjan

Eyþór: „Ég braut af mér og ég viðurkenni það og ég lærði af því“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 6. september 2019 11:10

Eyþór Arnalds

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, fjallar um feril sinn í Mannlífi í dag. Hann kemur inn á þegar hann var handtekinn fyrir ölvunarakstur árið 2006, þá oddviti Sjálfstæðismanna í Árborg, en hann keyrði á ljósastaur á Kleppsvegi og flúði af vettvangi, en málið vakti mikla athygli á sínum tíma.

Hann segir atvikið hafa breytt sinni lífssýn, hann hafi ákveðið að læra af atvikinu, en hann fór í áfengismeðferð í kjölfarið:

„Ég fór í gegnum meðferð hjá SÁÁ og síðan í AA. Það hefur komið fyrir að ég hef drukkið síðan, en ég hef náð allt öðrum tökum á sjálfum mér. Ég held það sé alltaf eitthvað á bak við það þegar fólk misnotar áfengi eða önnur vímuefni, það er einhver rót, menn verða að stunda mannrækt ef þeir ætla að ná tökum á fíkn eða kaosi og AA gerði mér mjög gott.“

Aðspurður hvort ekki sé pirrandi að atvikið sé rifjað upp og notað gegn honum, segir hann það ekki vera svo:

 „Nei, það er viðbúið. En sem betur fer er ég ekki með beinagrindurnar inni í skápnum, er bara með þær hérna á borðinu þannig að þetta er ekki neitt leyndarmál. Ég braut af mér og ég viðurkenni það og ég lærði af því. Það er hægt að læra af mistökum en það er líka hægt að læra ekki af þeim.“

Ágætis félagar

Samskipti meiri- og minnihlutans í borgarstjórn hafa verið með versta móti, ef marka má fréttir fjölmiðla á þessu kjörtímabili. Er gjarnan talað um sandkassaleik og leðjuslag í því tilliti. Hafa þeir Dagur borgarstjóri og Eyþór skotið hvor á annan í fjölmiðlum og mætti því ætla að litlir kærleikar séu á milli þeirra.

Það kemur því nokkuð á óvart að heyra hvað Eyþór hefur að segja um Dag B. Eggertsson, borgarstjóra, sem hann segir ekki vera andstæðing sinn utan borgarstjórnar:

 „Nei, alls ekki, við erum ágætis félagar. Við vinnum saman þó svo við séum ekki sammála um allt. Og þegar meirihlutinn leggur fram góð mál þá styðjum við þau. Við erum ekki í einhverjum hnefaleikum heldur stefnum öll að sama marki, þótt fjölmiðlar birti ekki fréttir af því. Það er nefnilega „catch 22“ að ef fjölmiðlar birta bara fréttir af því þegar einhver læti verða þá freistast sumir til þess að vera með læti til að komast í fréttirnar. Ég tel mig ekki vera einn af þeim en ég hins vegar tala hreint út, ég held það sé best að vera ekkert að flækja þetta.“

Notast ekki við aðferðir Davíðs

Eyþór mótmælir því einnig í viðtalinu að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti öllum tillögum  meirihlutans, bara til þess að vera á móti, og tileinki sér þar með verklag Davíðs Oddssonar, er hann var borgarstjóri:

 „Það er náttúrlega tölfræðilega rangt. Ef það er farið yfir fundargerðir borgarstjórnar sést að í áttatíu til níutíu prósent tilfella er minnihlutinn sammála meirihlutanum. Hins vegar ratar það ekki í fréttir. Ég er stoltur af því að við höfum bent á hluti sem ekki voru í lagi og ég finn það að það eru alltaf fleiri og fleiri sem eru sammála því að það er hægt að gera betur.“

Eyþór nefnir hinsvegar að borgarbúar fái ekki nægjanlega gott aðgengi að borgarstjóranum:

„Fólk gerir þá kröfu að kjörnir fulltrúar þess séu aðgengilegir. Það er eitt af því sem ég hef gagnrýnt núverandi borgarstjórnarmeirihluta fyrir. Ég heyri að fólk er óánægt með að geta ekki náð í borgarstjórann eða aðra sem fara með stjórnina og þá kemur það til okkar. Ég er til dæmis með viðtalstíma alltaf á mánudögum í Ráðhúsinu og það kemur oft til mín fólk sem segist ekki geta náð í neinn sem ræður. Borgarstjóri er ekki með fastan viðtalstíma, það þarf að panta þá sérstaklega og mér skilst að það sé mjög erfitt að fá slíkan tíma. Það er ekki nógu gott.“

Trump-bomba meirihlutans

Eyþór stenst heldur ekki mátið að líkja vinnubrögðum meirihlutans í „kjötmálinu“ við aðferðir Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, og er það ekki meint sem hól. Tilefnið er spurning blaðamanns hvort pólitíkin sé að breytast í þá átt að umræðan sé afvegaleidd með því að vekja athygli á sjálfum sér, líkt og Trump sé þekktur fyrir:

„Pólitíkin í heiminum er að breytast, já. En ég passa mig alla vega á því að vera lítið á Twitter því þar er svo mikið rifist og hlutirnir slitnir úr samhengi.Ég hef til dæmis ekkert á móti veganisma, eins og ætla mætti af umfjöllun fjölmiðla um skólamatinn, ég vil bara að fólk hafi val. Það er nýbúið að samþykkja stefnu sem allir flokkarnir voru sammála um, að það ætti að vera fiskur í mötuneytum skólanna tvisvar í viku, kjöt einu sinni og svo egg og skyr og ávextir og svo framvegis. Síðan kemur einn oddvitinn úr meirihlutanum í Ríkisútvarpið og segir að það eigi að draga verulega úr öllum dýraafurðum og það sé full samstaða um það hjá meirihlutanum. Það er svolítil bomba og ég myndi segja að það væri líkara Trump en það sem minnihlutinn hefur verið að gera. Þannig að Trump er víða.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?