Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, vísar á bug ásökunum Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að verklag sitt og aðferðafræði varðandi friðlýsingar, brjóti gegn lögum, líkt og Jón skrifaði um í morgun:
„Þarna hefur verið farið að öllum lögum og miðað við lög og lögskýringargögn, miðað við þá aðferðafræði sem verkefnisstjórn og faghópar rammaáætlunar miðuðu við. Þannig að það er ekkert sem á að koma á óvart. Ég kynnti þetta að sjálfsögðu fyrir ríkisstjórninni áður en til fyrstu friðlýsingarinnar kom, enda eðlilegt þegar um er ræða fyrstu friðlýsingarnar í verndarflokki rammaáætlunar. Þetta var náttúrlega bara rætt þar eins og er með mörg önnur mál, en þetta var niðurstaða mín sem ráðherra að með þessum hætti beri að gera þetta og það er algjörlega í samræmi við lög,“
segir Guðmundur við mbl.is.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sagði einnig við mbl.is að hún teldi Guðmund hafa farið að lögum að hún hafi ekki heyrt af neinum stjórnarslitum:
„Lögin um rammaáætlun gera ráð fyrir því að það sé verið að horfa til vatnasviðs viðkomandi vatnsfalla, þannig að ég tel að umhverfis- og auðlindaráðherra hafi hreinlega fylgt þeim lögum sem voru í gildi og hann hefur farið mjög vel yfir það hvað varðar sitt ráðuneyti. Ég hef hins vegar ekki heyrt neitt um að stjórnarsamstarfið sé í hættu út af þessu og vænti þess að ef svo er þá muni forysta Sjálfstæðisflokksins það á réttum vettvangi. Ef eitthvað er þá er ríkisstjórnin að fá aukinn liðsstyrk núna með ungri og kraftmikilli konu, Áslaugu Örnu, sem ég bara hlakka til að fá að vinna með.“