Eftir að Alþingi samþykkti þriðja orkupakkann í gær er ljóst að möguleikum Orkunnar okkar og þeirra sem barist hafa gegn innleiðingu orkupakkans, fækkar hratt. Orkan okkar hefur skorað á Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, að staðfesta ekki upptöku þriðja orkupakkans inn í EES-samninginn og vilja fá skorið úr um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Undirskriftarlisti þess efnis telur nú um 4000 manns. Stjórnmálaskýrendur segja það þó langsótt að forsetinn verði við þeirri áskorun, enda liggi breið samstaða um málið fyrir á þinginu, eftir atkvæðagreiðsluna í gær.
Í umræðum á Facebook hefur komið fram sú tilgáta að næsta baráttumál andstæðinga orkupakkans verði að berjast gegn sjálfum EES-samningnum, sem tók gildi hér árið 1994. Marinó G. Njálsson segir til dæmis í færslu í dag:
„Nokkrum mínútum eftir að niðurstaðan var ljós í atkvæðagreiðslunni um orkupakka 3, þá birtist bloggfærsla með fyrirsögninni „EES verður að víkja“ frá andstæðingum pakkans. Ég benti á það fyrr á árinu, að þetta myndi gerast. Varaði raunar við því, að andstaða (a.m.k. sumra) gegn orkupakkanum væri bara fyrsta skrefið í áhlaupi gegn EES-samningnum. Endalegt markmið væri uppsögn samningsins. Ég spurði raunar að því á vegg Frosta Sigurjónssonar hvort þetta væri markmiðið. Fékk ekki beint svar, bara að öllum brögðum yrði beitt. Nú skora ég á forsvarsmenn Orkunnar okkar, að koma hreint fram og svara hvort næsta skref hjá þeim verði barátta fyrir uppsögn EES-samningsins. Einnig skora ég á þingmenn Miðflokksins að svara sömu spurningu.“
Frosti Sigurjónsson, einn talsmanna Orkunnar okkar, sagði við Eyjuna að það væri ekki á þeirra stefnuskrá að segja upp EES-samningnum og að samtökin hefðu aldrei talað fyrir slíku:
„Nei nei, það er ekki komið frá okkur. Það er fáránlegt. Orkan okkar er bara að berjast fyrir fullu forræði Íslendinga í orkumálum. Það hefur ekkert komið til tals að ræða neitt um EES samninginn, þó fólk geti haft ýmsar skoðanir á því máli. Enginn talsmaður á vegum Orkunnar okkar hefur talað um að berjast gegn EES-samningnum, ég hefði vitað af því. Þannig að það er ekkert á dagskrá,“
segir Frosti.
Hann nefndi hinsvegar að margir hafi áhyggjur af því að með því að ganga inn í orkubandalagið muni myndast vaxandi andstaða við EES-samninginn sjálfan, verði hann ástæða þess að Ísland fari inn í orkubandalagið:
„En við erum bara í þessu, að tala um þessa orkupakka og teljum það bara styrkleika EES-samningsins að ríki geti fengið undanþágur frá löggjöf sem þau telja sig ekki þurfa að innleiða.“