Hagvöxtur er áætlaður 0,3% á fyrri helmingi ársins og hefur ekki verið minni frá því efnahagslífið reis upp úr kreppunni fyrir tæpum áratug. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands um hagvöxt á fyrri hluta ársins og Samtök atvinnulífsins fjalla um á vef sínum.
„Hagvöxtur er áætlaður 1,4% á 2. ársfjórðungi 2019 sem verður að teljast mikið í ljósi falls WOW Air, en á móti er áætlun um vöxt 1. fjórðungs lækkuð verulega.
Undirliðir landsframleiðslunnar á 2. ársfjórðungi bera merki mikillar aðlögunar í efnahagslífinu. Fjárfesting í heild dróst saman um 14% og munar þar mestu um 30% samdrátt fjárfestinga atvinnuveganna. Þá skilar utanríkisverslun jákvæðu framlagi til hagvaxtar vegna meiri samdráttar í innflutningi en í útflutningi.
Áhrif á næstu vaxtaákvörðun?
Athygli vekur að Hagstofan endurskoðar veruleg áætlun um hagvöxt á fyrsta fjórðungi ársins, nú er gert ráð fyrir 0,9% samdrætti landsframleiðslu á fjórðungnum í stað 1,7% vaxtar áður. Óheppilegt er að svo mikil endurskoðun eigi sér stað í ljósi þess að áætlanir Hagstofunnar um hagvöxt hafa áhrif á ákvarðanir um hagstjórn en fyrr í vikunni ákvað peningastefnunefnd Seðlabankans að lækka vexti um 0,25%.
Seðlabankinn hefur þrívegis lækkað vexti á árinu um samtals eina prósentu. Meginvextir bankans eru nú 3,5%. Eftir síðustu vaxtaákvörðun hafa tveir mikilvægir hagvísar verið birtir sem peningastefnunefnd mun horfa til við næstu vaxtaákvörðun. Í fyrsta lagi báru verðbólgutölur í ágúst merki um lækkandi verðlag í mánuðinum, ef litið er fram hjá útsöluáhrifum, og engan verðbólguþrýsting mátti greina í undirliðum verðbólgunnar. Í öðru lagi staðfesta nýbirtar hagvaxtartölur Hagstofunnar að kólnun er hafin í íslensku efnahagslífi. Í ljósi þessa hlýtur spurningin ekki vera hvort heldur hversu mikið stýrivextir muni lækka á næsta vaxtaákvörðunarfundi peningastefnunefndar þann 2. október nk.“