Á morgun, laugardaginn 31. ágúst, heldur forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, ásamt frú Elizu Reid til Póllands. Þar taka þau ásamt fleiri þjóðhöfðingjum og fulltrúum ríkja þátt í athöfn til að minnast innrásar Þjóðverja í Pólland en sá atburður markaði upphaf heimsstyrjaldarinnar síðari árið 1939. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta Ísland.
Minningarathöfn fer fram á Pilsudskitorgi sunnudaginn 1. september. Um kvöldið sitja forsetahjónin kvöldverð í boði Andrzej Duda, forseta Póllands. Forseti Íslands mun birta sérstakt ávarp í tilefni þessara tímamóta á vef embættisins, forseti.is, sunnudaginn 1. september.