Ekki er hægt að kaupa árskort í Strætó, þar sem engin árskort eru til. Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúi Miðflokksins, vekur athygli á þessu á Facebook í dag. Hann lýsir því að hann hafi ásamt konu sinni reynt að kaupa tvö árskort í Strætó, en það hafi ekki verið hægt, þar sem engin plastkort hafi verið til.
„Strætó – Bezta leiðin? Við hjónin ákváðum að styðja tvö ungmenni og kaupa fyrir þau árskort í Strætó. Það er því miður ekki hægt núna. Hvers vegna? Það eru ekki til plastkort til að prenta á……. ? Gerum aðra tilraun í næstu viku. Á meðan leyfum við okkur að setja spurningamerki aftan við slagorð Strætó hér ofar.“
Samkvæmt starfsmanni Strætó kemur þetta sér ákaflega illa, enda skólarnir að fara í gang og jafnan mikil sala á þessum árstíma. Samkvæmt Guðmundi Heiðari Helgasyni, upplýsingafulltrúa Strætó, fyrirfórst pöntun frá því í sumar við Vörumerkingu, sem býr til kortin:
„Við pöntuðum þetta snemma í sumar, en pöntunin hefur farið forgörðum. Við höfum hinsvegar boðið árskortakaupendum að fá aðgang að Strætó í gegnum símann sinn með Strætóappinu, þangað til að kortin verða tilbúin,“
sagði Guðmundur við Eyjuna.
Um 3000 kort voru pöntuð fyrr í sumar hjá Vörumerkingu, en þau hafa ekki skilað sér. Vonast er til að málið skýrist í dag eða á morgun.
Milli 100 og 200 árskort eru seld daglega alla jafnan á þessum árstíma og er verðið á þeim frá 9000 krónum upp í 74.800 krónur, allt eftir aldri og afsláttarkjörum.
Eyjan hafði samband við Vörumerkingu og náði tali af Brynjari Viggósyni, framkvæmdastjóra sölusviðs. Hann neitaði hinsvegar að gefa skýringar á kortaleysinu og bar við trúnaði við Strætó.
Strætó gaf út hálfsársuppgjör sitt á dögunum, þar sem fram kom að töluverð fjölgun hefði orðið á kúnnahópnum frá því á sama tíma í fyrra, eða sem nemur 400 þúsund manns.
Að sami skapi voru tekjur af fargj-öldum um 9 prósent hærri fyrstu sex mánuði ársins 2019 en á sama tíma í fyrra, eða um 948 milljónir króna, sem er um 28% af heildarrekstrarkostnaði Strætó.
Tapið nam tæpum 110 milljónum króna, eða um10 milljónum minna en á síðasta ári.
Sjá einnig: Strætó fengið yfir 26 milljarða í styrki frá árinu 2012 – Notkunin stendur í stað