Þeir Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins og Sigmar Vilhjálmsson, talsmaður FESK, félags, eggja-, svína- og kjúklingabænda, eru samstíga í gagnrýni sinni á RÚV í dag.
Sigmar, sem barist hefur gegn innleiðingu OP3, segir á Facebook að RÚV hafi brugðist skyldu sinni varðandi umfjöllun um þriðja orkupakkann:
„RÚV er mikilvæg stofnun á Íslandi. Það hefur lögbundinni skyldu að gegna í upplýsingaskyldu til þjóðarinnar. Hvar hefur RÚV verið í umræðunni um Orkupakka 3? Því hefur RÚV ekki gert sjálfstæða úttekt á þessum pökkum, farið til annarra landa, leitað svara og upplýst okkur öll um þessa innleiðingu?“
spyr Sigmar og heldur áfram:
„RÚV hefur hingað til verið að ota saman ólíkum skoðunum stjórnmálamanna sem allir hafa einhverja hagsmuni af því að vera með eða á móti. Er það upplýsingaskylda eða bara uppfylling? Það er búið að ræða OP3 í marga mánuði, þjóðin veit ekki hverju á að trúa og hvert á þá að leita? Mér er fyrirmunað að skilja það að RÚV hafi ekki séð ástæðu til þess að fara ofaní þetta mál og „fact check’a“ allt sem haldið hefur verið fram um kosti og galla við þessa innleiðingu. RÚV hefur einfaldlega brugðist skyldu sinni í þessu máli. Það er mitt mat, því miður. Síðan finnur maður vefsíðu með þessum upplýsingum og ætlar enginn að skoða það mál, ekki einu sinni RÚV?“
Þorsteinn tekur í sama streng. Hann gagnrýnir fjölmiðla almennt, en tekur RÚV sérstaklega fyrir:
„Mjög hefur skort á þátttöku fjölmiðla í að kynna orkupakkamálið með skipulögðum hætti þó ekki megi setja alla undir sama ljós. Einkum hefur ríkisfréttastofan brugðist hlutverki sínu. Það er m.a. eftirtektarvert að fyrsta umfjöllun ríkisfréttastofunnar um fjöldasamtökin Orkuna okkar sem andæft hefur OP3 misserum saman fór í loftið fyrir viku. Ein umfjöllun að sjálfsögðu, síðan ekki söguna meir. Það er í sjálfu sér athugunarefni að RUV bregðist þannig lýðræðislegri og lögmæltri skyldu sinni. Önnur spurning er til hvers við rekum slíkan fjölmiðil fyrir almannafé ef hann efnir ekki lögmæltar skyldur sínar.“