fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Eyjan

Kolbrún um þá sem sitja að kjötkötlunum í Reykjavík: „Stökkva gjarnan fram með einhverjar vanhugsaðar bombur“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 27. ágúst 2019 12:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir framgang Lífar Magneudóttur borgarfulltrúa VG í gær, um að minnka eða hætta alfarið framboði á kjöti í mötuneytum Reykjavíkurborgar, vera vanhugsaðan. Það sé ekki í fyrsta skipti sem sá meirihluti er situr nú að kjötkötlunum fari sínu fram án umræðu eða samtals við borgarbúa:

„Að henda inn svona sprengju eins og fulltrúi VG gerir er nú þessum meirihluta líkt. Þau stökkva gjarnan fram með einhverjar vanhugsaðar bombur og þetta er ein þeirra. Hver man ekki eftir tafagjöldunum, þegar þeirri umræðu var fleygt inn án nokkurrar hugsunar eða samtals við borgarbúa. Hvað varðar þetta mál er ekkert verið að hafa fyrir því að tala við foreldrana. Finnst meirihlutanum í borgarstjórn það ekki koma foreldrum við hvað börnunum þeirra er boðið upp á að borða í skólanum? Eiga þau í VG bara að ráða því?“

Kolbrún segist vilja forðast allar öfgar í þessu máli sem öðru. Segir hún að vel megi skoða að draga úr unnum kjötvörum, hafi það ekki verið gert. Þá vill hún auka gæði kjötsins sem boðið er upp á:

„Kannski er þetta dýrara en þá komum við að fyrirkomulaginu í borginni varðandi skólamötuneytin. Flokkur fólksins hefur verið með tillögu um að borgin skilgreini þjónustusamninga mötuneyta borgarinnar og bjóði rekstur þeirra út. Markmiðið með tillögunni var að skilgreina gæði mötuneytisfæðis betur og auka gæðin. Auk þess eru vísbendingar um að þetta fyrirkomulag er hagstæðara en það sem nú ríkir sbr. niðurstöður útboða. Tillagan var að sjálfsögðu felld.“

Spurning um val

Kolbrún segir sjálfsagt að boðið sé upp á grænkerarétti (vegan) í skólum, til viðbótar við aðrar hefðbundnari máltíðir:

„Í skólamatnum á að vera val, bjóða ætti upp á tvo rétti, aðalrétt sem er hefðbundin matur skv. ráðleggingum Landlæknisembættisins um mat í mötuneytum grunnskóla, en samhliða því er boðið upp á annan rétt, svokallaðan „hliðarrétt“, sem er „vegan“ matur, þ.e. matur án dýraafurða. Það er sennilega rúmlega 10% nemenda og starfsfólks sem nýta sér síðari kostinn. Með þessu er hægt að koma til móts við þarfir „grænkera“ en einnig að kynna þennan valkost fyrir öllum.“

Eldað frá grunni

Kolbrún skorar á skólamötuneyti að elda sem mest frá grunni, þannig megi tryggja betri hollustu:

„Mjög gott væri ef hægt er að bjóða upp á „meðlætisbar“ þ.e. salatbar með ávöxtum og tegundum af grænmeti, alla daga. Þetta má bjóða fram á aðlaðandi hátt til að auka neyslu á ávöxtum og grænmetis meðal nemenda. Hollur og ferskur matur er aðalatriðið fyrir börnin og að hann sé sem mest eldaður frá grunni í eldhúsum skólanna.  Ég kalla hér með eftir fleiri skólamötuneytum sem elda matinn sem mest frá grunni!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK