Stúdentaíbúðir munu rísa á lóð Háskóla Íslands við Gamla Garð samkvæmt breyttu deiliskipulagi sem borgarráð samþykkti í gær. Íbúðirnar verða byggðar samkvæmt deiliskipulagstillögu Andrúms arkitekta. Í breytingunni felst að stúdentaíbúðum verður fjölgað á háskólasvæðinu með stækkun á Gamla Garði með viðbyggingu og hugsanlegri nýtingu byggingarinnar Stapa fyrir stúdentaíbúðir, segir á vef Reykjavíkurborgar.
Athygli vekur að tillaga Andrýmis lenti í öðru sæti í hugmyndasamkeppninni um deiliskipulagið á reitnum, en verður samt fyrir valinu.
Hún þykir henta betur en tillagan sem lenti í fyrsta sæti en Minjastofnun Íslands og fleiri gerðu athugasemdir við hana vegna þess að hún þótti skyggja um of á byggingar á svæðinu og raska götumynd Hringbrautar þegar litið er til vesturs.
Stúdentaíbúðirnar rísa á reit á horni Suðurgötu og Hringbrautar og afmarkast af þeim götum til norðurs og austurs og af Sæmundargötu til suðurs og vesturs. Lóðin er á eignarlandi Háskóla Íslands.
Áformað er að reisa viðbyggingu við Gamla Garð, þrjár hæðir og kjallara, sem tengist suðurgafli núverandi húss. Við það verður til nýr aðalinngangur að sameinuðum Gamla Garði og viðbyggingu frá Sæmundargötu eða Skeifunni svokölluðu. Gert er ráð fyrir að í viðbyggingunni verði 70 ný stúdentaherbergi ásamt sameiginlegum eldhúsum, samkomurýmum og geymslum.
Heildarstærð nýbyggingarinnar sem mun rísa á reitnum verður að hámarki 2.800 fermetrar ofanjarðar.
Samkvæmt upplýsingum frá Stúdentagörðum er hönnun komin vel á veg. Vonast er til að framkvæmdir geti hafist um næstu áramót. Gert er ráð fyrir að verklok verði síðsumars 2021.
Stúdentagarðar eru að byggja 244 íbúðir á horni Sæmundargötu og Eggertsgötu og er reiknað með verklokum þar um áramót.
Í tillögu Andrúms arkitekta að viðbyggingunni er lagt upp með að hún falli vel að núverandi byggingum á háskólasvæðinu en Gamli Garður var á sínum tíma teiknaður af Sigurði Guðmundssyni arkitekt. Dregið er til muna úr umfangi byggingarmagnsins þannig að byggingar sem eru fyrir á svæðinu njóta sín áfram.
Í greinargerð Andrúms segir:
„Í því sambandi skiptir mestu að álmurnar tvær með herbergjum nemenda liggja samsíða meginálmum Gamla Garðs og Þjóðminjasafnsins og styrkja með því þá formheild og hrynjandi sem einkennir þessar tvær byggingar í götumynd Hringbrautar.“