Áróðursmiðum frá Orkunni okkar var komið fyrir við leiði í Fossvogskirkjugarði og í blómaskreytingum þar í gær. Erlingur Sigvaldsson vakti athygli á þessu á Twitter, en hann var þar á göngu.
„Þetta var aðkoman. Ég var í Pokémon Go í Fossvogskirkjugarði, sem ég hef gert nokkrum sinnum áður, og labbaði fram hjá þessum leiðum sem voru nokkuð undarlega merkt.“
Á miðanum eru gefnar upp 10 góðar ástæður til að segja nei við þriðja orkupakkanum og voru þeir nokkuð áberandi við leiðin í garðinum, hefur Vísir eftir Erlingi.
Birgir Örn Steingrímsson, einn talsmanna Orkunnar okkar sagði við Vísi að hann kannaðist ekki við málið og að dreifingin væri ekki á þeirra vegum. Líklegra væri að andstæðingar þeirra stæðu fyrir þessu:
„Það er einhver sem er að reyna að koma höggi á okkur, ég hef aldrei vitað þetta.Þetta er einhver sem er að reyna að klekkja á okkur, það eru margir Samfylkingarmenn og Viðreisnarmenn sem eru ekki voða hrifnir af þessu. Það er nokkuð ljóst að þetta er eitthvað svoleiðis, við erum ekki að setja þetta á leiði.“
Er þetta ekki full langt gengið Orkan okkar? pic.twitter.com/oEtHHSd856
— Erlingur Sigvaldason (@ellivithit) August 22, 2019