Kirstín Þ. Flygenring, fulltrúi Bankasýslu ríkisins í stjórn Arion banka, gerði engar athugasemdir árið 2017, við að Höskuldur Ólafsson, þáverandi bankastjóri Arion banka, fengi 150 milljónir króna við starfslok sín. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.
„Það slær mann sem ótrúlegt bruðl,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra um helgina, aðspurður um hvað honum þætti um upphæðina sem Höskuldur fékk við starfslok sín., en þess skal getið að það er þó fjármála- og efnahagsráðherra sem skipar fulltrúa Bankasýslunnar.Bjarni beindi árið 2017 sérstökum tilmælum til stjórna ríkisstofnanna að gæta hófs og varkárni þegar samið væri um laun.
Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir því að breytingarnar á ráðningasamningnum hafi verið samþykktar samhljóða af stjórnarmönnum Arion banka. Kirstín sat þar fyrir hönd Bankasýslunnar, en ríkið átti þá 13 prósenta hlut í bankanum.
Breytingar voru gerðar á ráðningasamningi Höskuldar um mitt ár 2017 er tengdust uppsagnarfresti og samningi um starfslok, sem kostaði bankann 150 milljónir króna vegna launa, og launatengdra gjalda, en Höskuldur lét af störfum í apríl að eigin frumkvæði, að eigin sögn.
Arion banki segir í svari sínu til Fréttablaðsins að mikilvægt hafi verið að tryggja nauðsynlegan stöðugleika með breytingum á ráðningarsamningi Höskuldar:
„Markmiðið var að tryggja að bankinn nyti starfskrafta Höskuldar fram að hlutafjárútboði og skráningu og í framhaldi af henni. Fyrir lá að það hefði einfaldlega skaðað og tafið útboðs- og skráningarferli bankans ef mannabreytingar yrðu bæði á stöðu stjórnarformanns og bankastjóra svo skömmu fyrir fyrirhugaða skráningu. Miklir hagsmunir voru í húfi og mat sú stjórn sem þá sat það afar mikilvægt að tryggja nauðsynlegan stöðugleika með því að gera breytingar á ráðningarsamningi bankastjóra.“
Fréttablaðið segir að Arion banki viðurkenni að kjör Höskuldar hafi „vissulega verið óvenjuleg“ en aðstæður hafi verið óvenjulegar einnig, í ljósi skráningar bankans á markað og nauðsyn þess að tryggja stöðuleika í æðstu stjórnunarstöðum í ferlinu.
Hinsvegar varð ekkert af hinu fyrirhugaða útboði og skráningu haustið 2017, þegar þáverandi ríkisstjórn liðaðist í sundur, heldur gekk skráningin í gegn ári síðar.