Ásgeir Jónsson hagfræðingur, tók við sem bankastjóri Seðlabanka Íslands í dag af forvera sínum, Má Guðmundssyni. Ásgeir hefur starfað við hagfræðideild HÍ frá árinu 2004, sem lektor og dósent, en hann hefur verið deildarforseti frá árinu 2015.
Mánaðartekjur Ásgeirs árið 2018 voru tæpar 1.2 milljónir króna, samkvæmt tekjublaði DV sem kemur út á morgun,. Upplýsingarnar byggja á greiddu útsvari samkvæmt álagningarskrám Ríkisskattstjóra.
Mánaðartekjur Más Guðmundssonar fyrir árið 2018, voru rúmlega 2.1 milljón króna og ljóst að laun Ásgeirs verða ekki undir þeirri upphæð.
Til samanburðar má nefna að Höskuldur H. Ólafsson, fyrrverandi bankastjóri Arion banka, var með rúmar 5.8 milljónir í tekjur á mánuði fyrir árið 2018.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka var með tæpar 4.9 milljónir á mánuði í tekjur og þá var Lilja Björk Einarsdóttir, Landsbankastýra með tæpar 3.4 milljónir á mánuði í tekjur árið 2018.