Sjórnmálaflokkurinn Lýðræðisflokkurinn er nýstofnaður og stendur fyrir umræðufundi í Iðnó á morgun, sunnudag, kl. 14. Skipuleggjandi og ábyrgðarmaður er Benedikt Lafleur. Flokkurinn er andsnúinn Orkupakka 3 og virðist að nokkru leyti vera stofnaður í tilefni átaka um hann. Dagskrá fundarins á morgun vekur athygli en þar koma fram þekktir og jafnframt ólíkir einstaklingar. Þannig tekur Blaz Roca – Erpur Eyvindarson – lagið, Aldís Schram lögfræðingur flytur ljóð og Kristinn Sigurjónsson, verkfræðingur og brottrekinn kennari úr Háskólanum í Reykavík vegna ummæla sinna um konur, heldur ræðu.
Aðrir sem koma fram eru Una María Óskarsdóttir, varaþingmaður Miðflokksins, Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, Albert Svan Sigurðsson, umhverfislandfræðingur og Pírati, og Eva Ísold Lind, upplýsingaaktívisti og einn af stofnendum Pírataflokksins.
Viðburðurinn er fyrst og fremst hugsaður sem umræðuvettvangur í boði Lýðræðisflokksins.