Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar, hyggst gefa út bók um Hannes Hólmstein Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor, í haust, líkt og Eyjan greindi frá í dag. Bókin er ekki unnin í samráði við Hannes, en þeir kumpánar hafa löngum verið á öndverðum meiði í pólitískri umræðu og ófá skotin fengið að fjúka á milli þeirra.
Eyjan innti Hannes eftir viðbrögðum vegna útgáfustarfsemi Karls, svona í ljósi þess að þeir hefðu lengi eldað grátt silfur saman:
„Verði honum að góðu. Ég kannast ekki við að hafa eldað grátt silfur saman við Karl Th. Birgisson. Ég hef svarað honum og öðrum fullum hálsi, þegar þeir hafa farið með rangfærslur eða hálfsannleika. Hann er ekki nein sérstök stærð í mínu fjölbreytta lífi. Hann má skrifa allar þær bækur, sem hann vill mín vegna,“
svaraði Hannes.
Aðspurður hvort hann hygðist lesa og eftir þörfum leiðrétta rit Karls Th. um sig, svaraði Hannes því neitandi:
„Ég stórefast um, að ég lesi þetta rit. Ég las ekki þriggja binda ævisögu mína eftir Eirík Norðdahl og fór ekki á leikrit það, sem sett var upp um mig á fjölum Þjóðleikhússins. Gallinn við þessa höfunda er, að þeir kunna ekki til verka og hafa ekki aðgang að heimildum. Þeir sitja heima hjá sér og láta sér nægja að googla á tölvunni og taka við símtölum frá öðrum minnipokamönnum.“
Hannes sagði við Eyjuna að hann hafi ekki í hyggju að setjast í helgan stein þó svo hann verði 67 ára á næsta ári. Hann segir að það komi vel til greina hinsvegar að færa ævisögu sína til bókar:
„Já, það getur vel verið. Ég hef haldið heilu kvöldverðarboðunum uppi á gamansögum úr deildinni hjá mér, og ef til vill vilja fleiri taka þátt í gamninu.“