Alls hafa fjórir látist í flugslysum hér á landi það sem af er ári. Rannsóknarnefnd samgönguslysa er með alls 33 mál til skoðunar á flugsviði, en 31 þeirra hafa komið til á þessu ári. Af þeim eru 13 ennþá opin.
Rætt er við Ragnar Guðmundsson, rannsakanda hjá nefndinni í Morgunblaðinu í dag:
„Það hafa orðið óvenjumörg flugslys á skömmum tíma. Það er búið að vera mun meira að gera undanfarið í slysa- og atvikarannsóknum en vant er,“
segir Ragnar. Hann vill ekki tjá sig um hvort hægt sé að fullyrða um ástæður þessa auknu tíðni slysa, né hvort auka þurfi mannafla í rannsóknarnefndinni til að bregðast við auknu álagi.
Þrír létu lífið í flugslysi fyrr í sumar í Múlakoti við Fljótshlíð, og einn lét lífið um helgina á Haukadalsflugvelli. Er þetta mannskæðasta árið hvað flugslys varðar frá árinu 2000, þegar alls sex manns létu lífið í einu banaslysi í Skerjafirði.
Það sem af er ári hafa þrír látist í bílslysum hér á landi.