Landhelgisgæslan hefur frá því í apríl verið með njósnadróna í láni frá Siglingaöryggisstofnun Evrópu. Georg Kr. Lárusson, forstjóri LSH, segir við Morgunblaðið í dag að dróninn hafi nýst vel við eftirlit á miðunum, í baráttunni gegn mengun og brottkasti, en gæslan sé með leyfi til að fljúga honum út frá Egilstöðum og út á norðausturhorn landsins.
Dróninn er framleiddur af Elbit systems í Ísrael og er notaður víða, meðal annars af stjórnvöldum í Azerbaijan, Brasilíu, Chile, Kólombíu, Mexíkó, Sviss, Evrópusambandinu, Filippseyjum og Ísrael.
„Þetta er ísraelskt apparat með fjórtán metra vænghaf og er um 1,2 tonn að þyngd,“ segir Georg við Morgunblaðið, en dróninn dregur 800 kílómetra frá stjórnstöð og getur náð 220 kílómetra hámarkshraða, náð níu kílómetra flughæð og verið í samtals 36 klukkustundir á flugi.
Dróninn getur borið 350 kílóa farm af ýmsu tagi, þar á meðal sprengjur og er nefndur sem einn af fimm banvænustu drónum allra tíma, samkvæmt umfjöllun The National Interest. Hann er sagður hafa spilað stóra rullu í átökunum á Gaza svæðinu, Líbanon og hernumdu svæðunum.
Dróninn verður í láni út ágústmánuð og segist Georg vonast til að fá slíkt tæki til þjónustu við gæsluna í framtíðinni:
„Við sjáum fyrir okkur að í framtíðinni muni þetta hugsanlega leysa af hólmi hefðbundna flugvél LSH, en það gerist ekki alveg á næstu árum.“