fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Afkoma Landsbankans verri en á sama tíma í fyrra: „Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri hluta ársins er gott“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 25. júlí 2019 16:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 11,1 milljarð króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2019 samanborið við 11,6 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2018. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 9,1% á ársgrundvelli, samanborið við 9,9% á sama tímabili 2018. Laun og launatengd gjöld lækkuðu um 2% á milli tímabila. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Hreinar vaxtatekjur voru 20,5 milljarðar króna og hækkuðu um 5% á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 4,1 milljarði króna samanborið við 3,9 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Virðisrýrnun útlána nam 2,4 milljörðum króna á tímabilinu, samanborið við jákvæðar virðisbreytingar upp á 1,7 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Vanskilahlutfall var 0,9% á fyrri helmingi ársins 2019 samanborið við 0,6% á sama tímabili 2018.

Rekstrartekjur bankans á fyrri helmingi ársins námu 27,9 milljörðum króna samanborið við 29,0 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur námu 5,7 milljörðum króna samanborið við 3,9 milljarða króna á sama tímabili árið áður.

Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,4% á fyrri helmingi ársins 2019 en var 2,7% á sama tímabili  í fyrra.

Rekstrarkostnaður bankans nam 12,2 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins 2019 og stendur hann í stað á milli tímabila. Þar af var launakostnaður 7,4 milljarðar króna samanborið við 7,5 milljarða króna á sama tímabili árið 2018. Annar rekstrarkostnaður var 4,9 milljarðar króna samanborið við 4,6 milljarða króna á sama tímabili árið áður.

Kostnaðarhlutfall á fyrri helmingi ársins 2019 var 40,4%, samanborið við 44,5% á sama tímabili árið 2018.

Útlán jukust um 6,2% frá áramótum, eða um 66 milljarða króna, bæði til einstaklinga og fyrirtækja. Innlán hjá Landsbankanum jukust um tæplega 5 milljarða frá áramótum.

Eigið fé Landsbankans var 240,6 milljarðar króna þann 30. júní sl. og eiginfjárhlutfallið var 23,7%.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri hluta ársins er gott. Tekjur bankans voru hærri og kostnaður lægri en gert var ráð fyrir og ljóst að grunnreksturinn er traustur og skilar góðri arðsemi. Aðhald í rekstri bankans á stóran þátt í að rekstrarkostnaður bankans stendur í stað á milli tímabila. Einnig hefur skilvirkni aukist með hagnýtingu á stafrænni tækni og nýjungar í þjónustu hafa fengið góðar viðtökur hjá viðskiptavinum. Kostnaðarhlutfall bankans á fyrri helmingi ársins var rúmlega 40% sem er lægra en á sama tíma í fyrra og lægra en markmið bankans.

Það er góður taktur í starfseminni og okkur er það mikið kappsmál að bjóða góða og samkeppnishæfa þjónustu. Landsbankinn var fyrstur íslenskra banka að bjóða öllum farsímanotendum upp á greiðslu í gegnum síma. Við vorum einnig fyrsti bankinn til að bjóða upp á aðgang að A2A-greiðslulausn sem er mikilvægt skref í átt að opnu bankakerfi.

Það eru óneitanlega ákveðin vonbrigði að matsfyrirtækið S&P Global Ratings meti horfur nú neikvæðar en að vissu leyti skiljanlegt í því efnahags- og samkeppnisumhverfi sem nú ríkir og S&P vísar til.  Á hinn bóginn verður að líta til þess að bæði S&P og Euromoney líta svo á að Landsbankinn hafi náð bestum rekstrarárangri banka á Íslandi að undanförnu.“

Helstu atriði úr rekstri á öðrum ársfjórðungi (2F) 2019

Rekstur:

  • Hagnaður Landsbankans á öðrum ársfjórðungi (2F) 2019 nam 4,3 milljörðum króna, samanborið við 3,5 milljarða króna hagnað á sama fjórðungi 2018.
  • Arðsemi eigin fjár eftir skatta nam 7,1%, samanborið við 6,1% fyrir sama tímabil árið 2018.
  • Hreinar vaxtatekjur námu 10,2 milljörðum króna, samanborið við 9,8 milljarða króna á sama ársfjórðungi árið 2018.
  • Virðisbreytingar útlána voru neikvæðar um 1,4 milljarða króna á 2F 2019, samanborið við jákvæðar virðisbreytingar upp á 703 milljónir á sama ársfjórðungi 2018.
  • Hreinar þjónustutekjur námu 2,1 milljarði króna en þær voru 2,2 milljarðar króna á 2F 2018.
  • Vaxtamunur eigna og skulda var 2,3% samanborið við 2,7% á 2F 2018.
  • Laun og launatengd gjöld námu 3,7 milljörðum króna samanborið við 3,9 milljarða króna á 2F 2018 sem er lækkun um 5%.
  • Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og launatengdum gjöldum hækkar um 2% frá sama tímabili árið áður.
  • Kostnaðarhlutfall á öðrum ársfjórðungi 2019 var 42,3%, samanborið við 53,6% á sama tíma árið áður.
  • Stöðugildi hjá Landsbankanum þann 30. júní 2019 voru 903 en voru 955 á sama tíma fyrir ári.

Efnahagur:

  • Eigið fé Landsbankans nam í lok júní 240,6 milljörðum króna og hefur hækkað um 0,4% frá áramótum.
  • Eiginfjárhlutfall alls (e. total capital ratio) þann 30. júní 2019 var 23,7% en var 24,1% í lok júní 2018. Það er vel umfram 21% lágmarkseiginfjárkröfu Fjármálaeftirlitsins.
  • Heildareignir bankans námu 1.403 milljörðum króna í lok júní 2019.
  • Innlán viðskiptavina námu 697,9 milljörðum króna í lok júní 2019 samanborið við 693 milljarða króna í lok árs 2018.
  • Útlán jukust um 6,2% á fyrri helmingi ársins, eða um 66 milljarða króna. Útlán til fyrirtækja jukust um 40 milljarða króna og útlán til einstaklinga jukust um 26 milljarða króna.
  • Í maí gaf Landsbankinn út skuldabréf með breytilegum vöxtum til átján mánaða að fjárhæð 300 milljónir norskra króna og 600 milljónir sænskra króna. Skuldabréfin voru seld á kjörum sem jafngilda 83 punkta álagi á þriggja mánaða millibankavexti í norskum krónum og 85 punkta álagi á þriggja mánaða millibankavexti í sænskum krónum.
  • Bankinn fylgist náið með og stýrir lausafjáráhættu bankans í heild, í erlendum myntum og í íslenskum krónum. Lausafjárhlutfall bankans (e. liquidity coverage ratio) var 174% í lok júní 2019.
  • Heildarvanskil fyrirtækja og heimila námu 0,9% í lok júní 2019, samanborið við 0,8% í lok árs 2018.

          1H 2019 1H 2018 2F 2019 2F 2018
Fjárhæðir í milljónum króna
 11.113 11.613 4.329 3.511
Hagnaður eftir skatta
Arðsemi eigin fjár eftir skatta  9,1%              9,9% 7,1% 6,1%  
 
Vaxtamunur eigna og skulda*  2,4%                2,7% 2,3% 2,7%
Kostnaðarhlutfall **  40,4% 44,5% 42,3% 53,6%  
          30.6.2019 30.6.2018 31.12.2018 31.12.2017
Heildareignir  1.402.835 1.249.853 1.326.041 1.192.870
Útlán til viðskiptavina 1.130.915 989.481 1.064.532 925.636
Innlán frá viðskiptavinum  697.898 654.689 693.043 605.158
Eigið fé  240.612 232.113 239.610 246.057
Eiginfjárhlutfall alls  23,7% 24,1% 24,9% 26,7%
Fjármögnunarþekja erlendra mynta  164% 165% 166% 179%
Heildar lausafjárþekja  174% 164% 158% 157%
Lausafjárþekja erlendra mynta  555% 743% 534% 931%
 
Vanskilahlutfall (>90 daga)  0,9% 0,6% 0,8% 0,9%
Stöðugildi  903 955 919 997  

    * Vaxtamunur eigna og skulda = (Vaxtatekjur/meðalstaða heildareigna) – (vaxtagjöld/meðalstaða heildarskulda).

    ** Kostnaðarhlutfall = Rekstrargjöld alls/(Hreinar rekstrartekjur – virðisbreytingar útlána).

Aðrir þættir í rekstri bankans á fyrri helmingi ársins 2019

  • Í Gallup-könnun mældist markaðshlutdeild Landsbankans á einstaklingsmarkaði 37,1% á fyrri hluta ársins en bankinn hefur verið með mestu markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði frá árinu 2014. Markaðshlutdeild bankans á fyrirtækjamarkaði mældist 31,9%, samkvæmt könnun Gallup. Hlutdeild Landsbankans í útlánum til fyrirtækja er um 40%.
  • Landsbankaappið var valið app ársins þegar Íslensku vefverðlaunin voru afhent í febrúar.
  • Ýmsar nýjungar voru kynntar í Landsbankaappinu og netbönkum á fyrri hluta ársins. Ein þeirra var stofnun kreditkorta í sjálfsafgreiðslu en kort sem stofnað er í sjálfsafgreiðslu er samstundis tilbúið til notkunar í Apple Pay, kortaappi Landsbankans og á netinu, þótt kortið sjálft hafi ekki borist notanda. Þá var nýtt yfirlit sem sýnir hversu háa heimild viðskiptavinir hafa til lántöku í sjálfsafgreiðslu gert aðgengilegt í Landsbankaappinu, svo annað dæmi sé nefnt. Landsbankinn mun halda áfram að þróa stafrænar lausnir í takti við þarfir viðskiptavina.
  • Notkun viðskiptavina á stafrænum lausnum heldur áfram að aukast hratt. Erlendar greiðslur eru nú í um 90% tilvika framkvæmdar í sjálfsafgreiðslu. Hið sama má segja um 75% af greiðslumötum og um 90% breytinga á kreditkorta- og yfirdráttarheimildum, svo nokkur dæmi séu nefnd.
  • Landsbankinn hlaut í apríl jafnlaunavottun sem er staðfesting á því að jafnlaunakerfi bankans samræmist kröfum jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.
  • Á aðalfundi bankans í apríl 2019 var samþykkt tillaga bankaráðs um að greiða arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2018 að fjárhæð 9.922 milljónir króna, sem samsvarar 0,42 krónu á hlut. Arðinn skyldi greiða í tveimur jafnháum greiðslum, annars vegar 10. apríl 2019 og hins vegar 2. október 2019. Fyrri arðgreiðslan var innt af hendi til hluthafa í apríl sl. í samræmi við ákvörðun fundarins.
  • Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti endurnýjaði í apríl viðurkenningu Landsbankans sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Það eru Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins, Nasdaq OMX Iceland og Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands sem standa að viðurkenningunni.
  • Landsbankinn samdi í apríl við Vörð um kortatryggingar fyrir korthafa Landsbankans til næstu fimm ára.
  • Frá og með 8. maí sl. hafa korthafar Landsbankans getað tengt greiðslukort sín við Apple Pay en Apple Pay gerir Apple-notendum kleift að greiða með Apple-tækjum, þ.e. iPhone, iPad, Apple-úri og Apple-tölvu, á sama hátt og með greiðslukorti. Viðtökurnar voru mjög góðar og greinilegt að margir höfðu beðið óþreyjufullir eftir að geta nýtt sér þennan möguleika.
  • Landsbankinn og Arion banki voru umsjónaraðilar almenns útboðs á Íslandi sem haldið var í tengslum við skráningu Marel í Euronext kauphöllina í Amsterdam en útboðinu lauk 5. júní sl.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð um slaufun Þórðar Snæs – „Þeir sem eru fyrstir til að kasta steinunum það eru yfirleitt ekki þeir syndlausu“

Sigmundur Davíð um slaufun Þórðar Snæs – „Þeir sem eru fyrstir til að kasta steinunum það eru yfirleitt ekki þeir syndlausu“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Össur segir Þorgerði farna að hallast til hægri – „Hún smó undan sem fugl á flugi“

Össur segir Þorgerði farna að hallast til hægri – „Hún smó undan sem fugl á flugi“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump