fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Eyjan

Sigmundur segir póli­tískri stefnu breytt í trú­ar­brögð þegar kemur að innflytjendamálum

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 23. júlí 2019 12:08

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir í grein sinni í Morgunblaðinu í dag að viðbrögð stjórnmálamanna við vandanum sem fylgi fjölgun „förufólks“ séu byggð á sýndarpólitík, en ekki staðreyndum og lausnum.

Sigmundur nefnir að flestir þeir sem komi á bátum yfir Miðjarðarhafið hafi keypt farið hjá glæpagengjum sem selji sætið dýru verði, enda geti fái fólkið ekki vegabréfsáritun og þetta sé því eina úrræðið, að gerast ólöglegir innflytjendur.

Velferðakerfið myndi hrynja

Sigmundur nefnir að ef opnað væri fyrir að fólkið kæmi með flugi, myndu móttökulöndin ekki ráða við það ástand sem fljótt myndi skapast.

„Straum­ur­inn yrði enda­laus og breyt­ing­in á sam­fé­lög­un­um yrði strax aug­ljós. Vel­ferðar­kerfi Vest­ur­landa, sem mörg eru þegar gjaldþrota, fengju ekki við neitt ráðið. Í stað þess að leita skyn­sam­legr­ar stefnu og veita aðstoð í flótta­manna­búðunum beita Evr­ópu­lönd þess­ari grimmi­legu aðferð til að tak­marka fjöld­ann. Það fell­ur hins veg­ar ágæt­lega að sýnd­ar­mennsk­unni. Það að taka á móti fólki eft­ir svaðilför hef­ur mun meira sýnd­ar­gildi en að af­greiða land­vist­ar­leyfi millj­óna manna í flug­stöðvum.“

Sigmundur segir Evrópulönd því „hvetja“ ólöglegra fólksflutninga:

„Þess í stað standa Evr­ópu­lönd­in í raun fyr­ir því brjálæðis­lega fyr­ir­komu­lagi að hvetja fólk til að leita til hættu­legra glæpa­manna. Þeir fá stór­fé fyr­ir von­ina um að þeir standi við fyr­ir­heit um að fara með karla, kon­ur og börn í lífs­hættu­lega för. Fólk sem kemst alla leið get­ur svo átt von um hæli.“

Sigmundur nefnir einnig að alþekkt sé að börn sem fari í slíkt ferðalag skili sér ekki alltaf á áfangastað, þar sem glæpagengin selji þau í þrældóm og mansal.

Ástralska aðferðin

Sigmundur segir að myndbirtingar á látnu flóttafólki hafi ekki bætt aðstæður í flóttamannabúðum, heldur hafi þess í stað hvatt enn fleira flóttafólk til að leggja í slíkar hættufarir:

„Ástr­alir tóku hins veg­ar upp þá stefnu að stöðva eða snúa við bát­um glæpa­manna sem reyndu að smygla fólki til lands­ins. Áhrif­in urðu þau að glæpa­geng­in gátu ekki leng­ur selt fólki slíka hættu­för og mun færri létu lífið fyr­ir vikið.“

Sigmundur hyggst síðar skrifa um bestu lausnirnar í þessu máli, en þess má geta að að Áströlsk herskip sneru við bátum flóttafólks árið 2014, með þeim afleiðingum að tugir hælisleitenda þurftu að gangast undir læknishendur, eftir að hafa verið beittir ofbeldi af hálfu ástralska sjóhersins.

Sjá nánar hér

Umræðan í Bandaríkjunum

Sigmundur segir að birtingin á myndinni af manni og barni sem drukknað höfðu við að reyna að komast til Bandaríkjanna frá Mexíkó hafi verið birt vegna þess fordæmis sem myndin af drukknuðum dreng við strendur Grikklands hefði skapað.

Segir hann tilganginn með myndbirtingunni hafa verið að „hafa áhrif“ á stjórn­má­laum­ræðu vestan hafs:

„Víða var látið að því liggja að harm­leik­ur­inn væri af­leiðing stefnu Banda­ríkja­for­seta. Umræðan var svo sett í sam­hengi við það sem menn leyfa sér nú að kalla „ein­angr­un­ar­búðir“ fyr­ir inn­flytj­end­ur í Banda­ríkj­un­um.“

Sigmundur telur umræðuna litast af því hver sitji í forsetastóli hverju sinni:

„Eft­ir­lit með komu fólks á suður­landa­mær­um Banda­ríkj­anna er hins veg­ar ekki nýtil­komið. Afstaðan til þess virðist hins veg­ar fyrst og fremst mark­ast af því hver er bú­sett­ur í Hvíta hús­inu hverju sinni.

Á meðan Barack Obama átti þar heim­ili voru að jafnaði 30-40.000 manns í lokuðum inn­flytj­enda­búðum við landa­mær­in. Börn voru færð fremst í röðina þegar kom að brott­vís­un fólks. Fleir­um var vísað úr landi í tíð Obama en nokkru sinni áður. Þá hentaði hins veg­ar ekki sýnd­ar­stjórn­mála­mönn­um að benda á það.“

Sýndarstjórnmál sem trúarbrögð

Sigmundur segir stjórnmálamenn gera málið illt verra með sýndarpólitík:

„Í vest­rænni stjórn­má­laum­ræðu eru hlut­irn­ir nú orðnir svo öf­ug­snún­ir að þeir sem raun­veru­lega leita lausna, leita leiða til að tak­ast á við stærstu vanda­mál sam­tím­ans með það að mark­miði að gera sem mest gagn, eru út­hrópaðir fyr­ir að fylgja ekki sýnd­ar­póli­tík sem þó er oft til þess fall­in að gera illt verra.

Hvergi er litið til heild­aráhrifa eða lang­tíma­áhrifa. Ekki er leitað raun­hæfra lausna. Þess í stað er póli­tískri stefnu breytt í trú­ar­brögð. Svo er lagt blátt bann við því að segja, jafn­vel að hugsa, það sem fell­ur ekki að kenni­setn­ing­unni. Iðulega snú­ast aðgerðir ekki um raun­veru­lega um­hyggju fyr­ir öðrum held­ur sjálfs­upp­hafn­ingu eða til­raun­ir til að koma höggi á and­stæðinga.

Þegar það fer sam­an að keppn­in snýst um að vera betri en aðrir og að hún bygg­ist á póli­tísk­um trú­ar­brögðum verður þró­un­in óhjá­kvæmi­lega sú að sam­keppni verður um að vera hreinni í trúnni en hinir. Fyr­ir vikið versn­ar ástandið jafnt og þétt.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?