Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir í grein sinni í Morgunblaðinu í dag að viðbrögð stjórnmálamanna við vandanum sem fylgi fjölgun „förufólks“ séu byggð á sýndarpólitík, en ekki staðreyndum og lausnum.
Sigmundur nefnir að flestir þeir sem komi á bátum yfir Miðjarðarhafið hafi keypt farið hjá glæpagengjum sem selji sætið dýru verði, enda geti fái fólkið ekki vegabréfsáritun og þetta sé því eina úrræðið, að gerast ólöglegir innflytjendur.
Sigmundur nefnir að ef opnað væri fyrir að fólkið kæmi með flugi, myndu móttökulöndin ekki ráða við það ástand sem fljótt myndi skapast.
„Straumurinn yrði endalaus og breytingin á samfélögunum yrði strax augljós. Velferðarkerfi Vesturlanda, sem mörg eru þegar gjaldþrota, fengju ekki við neitt ráðið. Í stað þess að leita skynsamlegrar stefnu og veita aðstoð í flóttamannabúðunum beita Evrópulönd þessari grimmilegu aðferð til að takmarka fjöldann. Það fellur hins vegar ágætlega að sýndarmennskunni. Það að taka á móti fólki eftir svaðilför hefur mun meira sýndargildi en að afgreiða landvistarleyfi milljóna manna í flugstöðvum.“
Sigmundur segir Evrópulönd því „hvetja“ ólöglegra fólksflutninga:
„Þess í stað standa Evrópulöndin í raun fyrir því brjálæðislega fyrirkomulagi að hvetja fólk til að leita til hættulegra glæpamanna. Þeir fá stórfé fyrir vonina um að þeir standi við fyrirheit um að fara með karla, konur og börn í lífshættulega för. Fólk sem kemst alla leið getur svo átt von um hæli.“
Sigmundur nefnir einnig að alþekkt sé að börn sem fari í slíkt ferðalag skili sér ekki alltaf á áfangastað, þar sem glæpagengin selji þau í þrældóm og mansal.
Sigmundur segir að myndbirtingar á látnu flóttafólki hafi ekki bætt aðstæður í flóttamannabúðum, heldur hafi þess í stað hvatt enn fleira flóttafólk til að leggja í slíkar hættufarir:
„Ástralir tóku hins vegar upp þá stefnu að stöðva eða snúa við bátum glæpamanna sem reyndu að smygla fólki til landsins. Áhrifin urðu þau að glæpagengin gátu ekki lengur selt fólki slíka hættuför og mun færri létu lífið fyrir vikið.“
Sigmundur hyggst síðar skrifa um bestu lausnirnar í þessu máli, en þess má geta að að Áströlsk herskip sneru við bátum flóttafólks árið 2014, með þeim afleiðingum að tugir hælisleitenda þurftu að gangast undir læknishendur, eftir að hafa verið beittir ofbeldi af hálfu ástralska sjóhersins.
Sigmundur segir að birtingin á myndinni af manni og barni sem drukknað höfðu við að reyna að komast til Bandaríkjanna frá Mexíkó hafi verið birt vegna þess fordæmis sem myndin af drukknuðum dreng við strendur Grikklands hefði skapað.
Segir hann tilganginn með myndbirtingunni hafa verið að „hafa áhrif“ á stjórnmálaumræðu vestan hafs:
„Víða var látið að því liggja að harmleikurinn væri afleiðing stefnu Bandaríkjaforseta. Umræðan var svo sett í samhengi við það sem menn leyfa sér nú að kalla „einangrunarbúðir“ fyrir innflytjendur í Bandaríkjunum.“
Sigmundur telur umræðuna litast af því hver sitji í forsetastóli hverju sinni:
„Eftirlit með komu fólks á suðurlandamærum Bandaríkjanna er hins vegar ekki nýtilkomið. Afstaðan til þess virðist hins vegar fyrst og fremst markast af því hver er búsettur í Hvíta húsinu hverju sinni.
Á meðan Barack Obama átti þar heimili voru að jafnaði 30-40.000 manns í lokuðum innflytjendabúðum við landamærin. Börn voru færð fremst í röðina þegar kom að brottvísun fólks. Fleirum var vísað úr landi í tíð Obama en nokkru sinni áður. Þá hentaði hins vegar ekki sýndarstjórnmálamönnum að benda á það.“
Sigmundur segir stjórnmálamenn gera málið illt verra með sýndarpólitík:
„Í vestrænni stjórnmálaumræðu eru hlutirnir nú orðnir svo öfugsnúnir að þeir sem raunverulega leita lausna, leita leiða til að takast á við stærstu vandamál samtímans með það að markmiði að gera sem mest gagn, eru úthrópaðir fyrir að fylgja ekki sýndarpólitík sem þó er oft til þess fallin að gera illt verra.
Hvergi er litið til heildaráhrifa eða langtímaáhrifa. Ekki er leitað raunhæfra lausna. Þess í stað er pólitískri stefnu breytt í trúarbrögð. Svo er lagt blátt bann við því að segja, jafnvel að hugsa, það sem fellur ekki að kennisetningunni. Iðulega snúast aðgerðir ekki um raunverulega umhyggju fyrir öðrum heldur sjálfsupphafningu eða tilraunir til að koma höggi á andstæðinga.
Þegar það fer saman að keppnin snýst um að vera betri en aðrir og að hún byggist á pólitískum trúarbrögðum verður þróunin óhjákvæmilega sú að samkeppni verður um að vera hreinni í trúnni en hinir. Fyrir vikið versnar ástandið jafnt og þétt.“