Um 1500 pakkningar af kjúklingaáleggi frá Kjarnafæði fóru í dreifingu þar sem innihaldslýsingin kom ekki heim og saman við sjálfa vöruna, en í innihaldslýsingu sagði að áleggið væri 80% grísakjöt.
Á þetta bendir Stefán Pálsson sagnfræðingur, á Facebook síðu sinni í morgun og birtir mynd af álegginu með innihaldslýsingunni:
„Uhhh… er kjúklingaáleggið mitt að mestu úr svínakjöti? Nú þurfum við að tala saman Kjarnafæði!“
Stefán sagði í samtali við Eyjuna að þar sem sonur hans hefði tekið upp á því að hætta að neyta svínakjöts tíðkaðist það á hans heimili að lesa innihaldslýsingar:
„Hér eru engar strangar trúarástæður að baki, en ég á 10 ára strák sem hætti að borða svínakjöt fyrir allnokkru síðan og hef ég komist að því að það er fjári margt sem mönnum tekst að troða svínaafurðum inn í og þegar ég las að það væri komið í kjúklingaáleggið var mér öllum lokið,“
sagði Stefán léttur í bragði, sem hafði fengið skýringar hjá Kjarnafæði vegna þessa:
„Ég merkti Kjarnafæði í færslunni hjá mér og þeir brugðust fljótt við, þetta reyndist prentvilla og því skandall drepinn í fæðingu,“
sagði Stefán.
Eyjan talaði við Ólaf Rúnar Ólafsson, sölustjóra hjá Kjarnafæði, sem sagði um mistök í merkingu að ræða:
„Þetta er keyrt í gegnum vél hjá okkur og það gleymdist að skipta um númer á miðanum, það er búið að taka úr umferð þetta eru forprentaðir miðar sem stendur kjúklingaálegg, síðan er hitt sett í og þá hefur gleymst að skipta um vörunúmerið. Það er verið að innkalla og sækja það sem við getum, en það fóru um 1500 svona pakkningar í sölu. Við fengum ábendingu frá einni búð um þetta líka og brugðumst strax við. Þetta eru bara mistök hjá okkur og ég vil nota tækifærið til að biðjast afsökunar á þessu.“
Þess má geta að rétt innihaldslýsing á kjúklingaálegginu frá Kjarnafæði er eftirfarandi:
Kjúklingakjöt 60%, vatn, sterkja, SOYAPRÓTEIN, salt, maltodextrin, þrúgusykur, vatnsrofin jurtaprótein, (HVEITI og SOYA), ger, repjuolía, rotvarnarefni E250, þráavarnarefni E316, bindiefni E407a,E410,415,451, sýrustillir E508