fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Reykjavíkurborg vill efla smærri tónleikastaði með styrkjum

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 16. júlí 2019 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýr úrbótasjóður á vegum Reykjavíkurborgar á að hlúa að smærri tónleikastöðum í borginni með því að veita styrki til úrbóta. Opnað verður fyrir umsóknir í sjóðinn mánudaginn 15. júlí en umsóknarfrestur er til 30. ágúst, samkvæmt vef Reykjavíkurborgar.

„Hlutverk úrbótasjóðsins er að styðja við tilvist minni og miðlungs stórra tónleikastaða í Reykjavík sem og menningarhúsa sem sinna lifandi tónlistarflutningi með því að veita styrki til úrbóta á tónleikastöðunum hvað varðar aðstöðu, aðbúnað og aðgengi. Þannig er stuðlað að áframhaldandi aðstöðu fyrir lifandi tónlistarflutning í borginni sem styður um leið við tónlistarlífið og eflir mannlífið,“

segir í frétt á vef Reykjavíkurborgar.

Úrbótasjóðurinn er hluti af verkefninu Tónlistarborgin Reykjavík sem sett var á laggirnar haustið 2017. María Rut Reynisdóttir verkefnastjóri Tónlistarborgarinnar segir að mikil vinna hafi farið í að skoða rekstrarveruleika tónleikastaða í borginni. Stofnað var til samtals við forsvarsmenn tónleikastaðanna, hugmyndir mótaðar í nánu samstarfi við staðina, framkvæmd voru djúpviðtöl við forsvarsmenn nokkurra tónleikastaða og skýrsla tekin saman með helstu niðurstöðum. Auk þessa var skipaður þriggja manna faghópur sem gerði úttekt á tónleikastöðum í samráði við þá. Fjölmargar hugmyndir um aukinn stuðning borgarinnar við tónleikastaði hafa verið viðraðar og mótaðar upp að vissu stigi en sú sem fékk hvað mest brautargengi til að byrja með er úrbótasjóðurinn.

Úrbótasjóðurinn heyrir undir menningar-, íþrótta- og tómstundaráð sem skipar faghóp til tveggja ára sem fer yfir umsóknir. Ráðið tilnefnir einn fulltrúa sem er jafnframt formaður og hagsmunasamtök innan tónlistar er leggja sjóðnum til fé skipa sameiginlega tvo fulltrúa. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Gæta skal að kynjahlutfalli við skipan fulltrúa í faghópi. Faghópurinn leggur fram rökstuddar tillögur um úthlutun úr sjóðnum fyrir menningar-, íþrótta- og tómstundaráð sem endanlega ákveður úthlutanir.

Ein af meginstoðum hverrar tónlistarborgar er sá vettvangur sem er til staðar fyrir lifandi tónlistarflutning, tónleikastaðirnir. Undanfarin ár hefur sú þróun átt sér stað í borgum, ekki einungis á Íslandi heldur um allan heim, að tilvist minni og miðlungsstórra tónleikastaða hefur verið ógnað. Ástæðurnar eru einna helst þétting byggðar og aukinn ferðamannastraumur sem breytir ásýnd borga, einkum miðsvæðis. Tónleikastöðum er lokað vegna byggingar hótela og íbúðakjarna eða leigan hækkar og reynist of stór biti að kyngja. Þversögnin er sú að engin er borg án mannlífs og flestir eru væntanlega sammála því að tónleikastaðir og ýmis konar menningarstarfsemi er stór hluti af því sem gerir borgir aðlaðandi heim að sækja eða búa í. Með úrbótasjóðnum er verið hlúa að þeim stöðum sem fyrir eru í borginni. Við þetta má bæta að með gjörbreyttu landslagi tónlistariðnaðarins þar sem lifandi tónlistarflutningur hefur tekið við sem ein megin tekjulind tónlistarfólks þá er það jafnvel enn meira aðkallandi og nauðsynlegt tónlistarlífinu öllu að tryggja aðstöðu til lifandi tónlistarflutnings.

Um tímabundið átaksverkefni til tveggja ára er að ræða. Fyrst verður úthlutað úr sjóðnum árið 2020 og svo aftur árið 2021. Í úrbótasjóðinn rennur árlegt framlag úr menningarpotti Reykjavíkurborgar að upphæð kr. 8 milljónir, til viðbótar við framlag frá STEF og öðrum hagsmunasamtökum innan tónlistar.

Umsóknareyðublað og frekari upplýsingar er að finna hér

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Í gær

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“