fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Íslenskir bjórframleiðendur fullir gremju: „Mun flóknara að brugga góðan bjór en að búa til vín“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 15. júlí 2019 10:03

Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Áfengisgjöld á Íslandi eru þau hæstu í Evrópu og útsöluverð eftir því. Ekki er á allra vitorði að hærri álögur eru lagðar á bjór en léttvín hér á landi, sem hugnast íslenskum bjórframleiðendum illa, enda mikil gróska í þeim bransa um þessar mundir. Vilja þeir að lögin verði endurskoðuðuð með þetta í huga, samkvæmt Pétri Snorrasyni, formanni Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa og stofnanda RVK Brewing Company, sem í Morgunblaðinu í dag kallar eftir lækkun áfengisgjalda á bjór.

„Ég veit ekki hvaða rök eru þarna að baki en þau eiga í það minnsta ekki lengur við. Breytinga er þörf. Fyrsta skrefið ætti auðvitað að vera að lækka áfengisgjöld á bjór niður á sama stig og er hjá léttvínum. Ekki síst til að styðja við bakið á innlendri framleiðslu. Það myndi muna gríðarlega miklu fyrir okkur. Ég og fleiri framleiðendur erum að skapa störf og nýsköpun um allt land, ráða fólk í vinnu og fá til okkar gesti og túrista. Á sama tíma búum við við mjög óþjált umhverfi áfengisgjalda sem er mjög íþyngjandi. Hér er mun erfiðara að framleiða metnaðarfulla handverksbjóra enda eru þeir gjarnan með hærri áfengisprósentu. Fyrir vikið verður öll framleiðsla einsleitari en ella. Það er mjög erfitt að standa undir þeirri grósku sem er að verða alls staðar í kringum okkur í þessu umhverfi,“

segir Pétur en hæstu áfengisgjöldin eru lögð á sterk vín, meðan næsthæstu gjöldin eru lögð á bjór og þau lægstu leggjast á vín.

„Við hjá Samtökum íslenskra handverksbrugghúsa höfum reyndar talað fyrir því að minni framleiðendur fái 50% afslátt af áfengisgjöldum eins og tíðkast sums staðar erlendis. Það myndi renna stoðum reglulega vel undir þennan blómlega iðnað sem er að verða til um allt land.“

Erfiðara að gera bjór en vín

Agnes Anna Sigurðardóttir, stofnandi og einn eiganda Kalda á Árskógsströnd, segir löggjöfina leifar frá fortíðinni sem beri að breyta:

„Að kampavín og fleiri vinsælir drykkir beri lægri gjöld en bjór er ótrúlega galið. Sérstaklega þar sem við erum ekki að framleiða neitt léttvín á Íslandi en erum mjög sterk í bjórframleiðslu. Við erum með svo gott vatn á Íslandi. Íslendingar og erlendir gestir velja íslenskt út af gæðunum, þeir finna muninn. Það situr enn þá í sumum Íslendingum að það sé fínna að fá sér hvítvín eða rauðvín en bjór. En þeir sem eru í bruggheiminum vita að það er mun flóknara að brugga góðan bjór en að búa til vín. Síðustu ár hefur bjórinn fengið meiri viðurkenningu og er nú höndlaður sem gæðavara. Þessi löggjöf um áfengisgjöld er leifar frá fortíð og ætti auðvitað að breytast í takt við þessa þróun.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt